Innlent

Sakar stjórnvöld og banka um leikbrögð

Skúli Thoroddsen.
Skúli Thoroddsen. MYND/Hari

Framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins sakar ríkisstjórnina, Seðlabankann og banka landsins um leikbrögð um helgina og að vaxtaokri og tangarhaldi á íslenskum almenningi verði viðhaldið.

Á heimasíðu Starfsgreinasambandsins ritar Skúli Thoroddssen, framkvæmdastjóri sambandsins, grein um atburði helgarinnar. Þar kemur fram að formannafundur SGS hafi í gær lýst yfir stuðningi við forystu ASÍ í viðræðum hennar við Samtök atvinnulífsins og ríkisvaldsins um það alvarlega ástand sem ríki í fjármálageiranum. ASÍ og SA hafi lagt fram sameiginlega kröfu um agaða hagstjórn og skýr skilaboð um breytta peningamálastefnu þar sem aðildarumsókn að ESB og upptöku evru var ofarlega á lista. „Það kom heldur ekki til álita að lífeyrissjóðirnir flyttu 200 milljarða af eignum sjóðanna heim í þeim tilgangi að styrkja gjaldeyrisforðann nema bankarnir losuðu um eitthvað af erlendum eignum sínum líka," segir Skúli.

Þá vísar hann til þess að Geir H. Haarde hafi skyndilega um miðnætti í gær lýst því yfir að ekki væri lengur þörf á aðgerðapakka heldur myndu bankarnir selja eignir í útlöndum. Skúli segir forsætisráðherra aldrei hafa viljað upplýsa um hve mikill vandin væri að öðru leyti en hann væri ógurlegur. Hann hefði reynst vera heimabakaður af bönkunum eins og Þorvaldur Gylfason hefði upplýst í Silfri Egils í gær.

„Sú alvarlega spurning hlýtur þó að sitja eftir; um hvað snérist málið? Svar: Leikbrögð. Leikbrögð Kaupþings og Landsbanka sem í gær kl. 17:00, náðu samkomulagi um hugmyndir um hvernig bankarnir tveir gætu unnið saman að því tryggja stöðugleika í fjármálalífinu í samvinnu við ríkisstjórn og Seðlabanka, án samráðs við aðila vinnumarkaðarins.

Svo virðist sem þessir aðilar hafi ekki hag af agaðri peningamálastefnu. Menn þurfa að geta leikið sér frítt, það þarf að vera unnt að viðhalda vaxtaokrinu, Davíð í Seðlabankanum og tangarhaldi á íslenskum almenningi.

Meðan á þessum leikbrögðum stóð var bankamálaráðherrann í símanum við útlönd. Það reyndist óþarfi," segir Skúli enn fremur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×