Erlent

Standa ráðþrota gagnvart sómölskum sjóræningjum

Þrátt fyrir að ráða yfir fullkomnustu herskipum í heimi virðast Vesturlönd standa ráðþrota gagnvart sómölskum sjóræningjum. Þeir ræna hverju skipinu af öðru og hirða tugmilljónir dollara í lausnargjald.

Sextán flutningaskip af ýmsum stærum og gerðum liggja nú við akkeri undan hafnarborginni Eyl í Sómalíu. Þeim hefur öllum verið rænt. Þrjúhundruð og fjórtán sjómenn eru um borð í þessum skipum.

Meðal skipanna er þrjúhundruð þúsund tonna olíuskip. Eitt fjögurra skipa sem hefur verið rænt síðan á laugardag. Ástæðan fyrir því að þau eru utan við Eyl er sú að þar er miðstöð sjóræningjanna og þeir eru að bíða eftir að fá greitt lausnargjald fyrir skipin.

Nokkru utar liggja svo vestræn herskip sem ekki hafa getað hindrað sjóránin og hafa ekki alþjóðlegt umboð til þess að leggja til atlögu eftir að skipunum hefur verið rænt.

Margar vestrænar þjóðir hafa sent herskip til að reyna að hindra sjóránin. En svæðið sem þau þurfa að vakta er um þrjár milljónir ferkílómetera.

Eftirlitið hefur þó ekki verið með öllu árangurslaust. Indversk freigáta sökkti í gær einu af móðurskipum sjóræningjanna.

Og bresk freigáta handtók átta menn í síðustu viku eftir stuttan skotbardaga sem kostaði átta sjóræningja lífið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×