Innlent

Hreppurinn borgaði laxveiði og flugmódel fyrir Brynjólf

Fyrrverandi sveitarstjóri í Grímsey lét hreppinn greiða fyrir sig laxveiði og flugmódel. Hann neitaði ekki sakargiftum þegar fjársvikamál hans var dómtekið í dag, en grunur leikur á að hann hafi stolið 27 milljónum.

Það fór ekki mikið fyrir Brynjólfi Árnasyni fyrrverandi sveitarstjóra í Grímsey þegar hann gekk inn í dómssal í dag þar sem lesin var upp fyrir hann ákæra í 12 liðum.

Ríkislögreglustjóri telur brot hans margvísleg og má munar þar mestu um millifærslur úr sjóðum sveitarfélagsins inn á reikninga Brynjólfs, og greiðslur fyrir ýmsa muni sem hann keypti sjálfur en lét hreppinn greiða fyrir. Sem dæmi segir í ákærunni að Brynjólfur hafi án heimildar látið hreppinn greiða fyrir sig laxveiðiferðir og flugmódel sem hann ásældist.

Bótakrafa Grímseyjarhrepps nemur alls tæpum 27 milljónum króna en auk þess er hann kærður fyrir umboðssvik.

Brynjólfur neitaði hvorki sakargiftum né gerði hann athugasemd við bótakröfu Grímseyjarhrepps fyrir dóminum í dag. Talið er að brot hans hafi staðið yfir frá árinu 2005-2007. Grunur kviknaði um að Brynjólfur hefði sem sveitarstjóri dregið sér fé þegar hann var dæmdur í nóvember í fyrra fyrir stórfelldan olíustuld en samhliða sveitarstjórastörfunum rak hann verslunina Grímskjör í Grímsey og var starfsmaður olíufélags. Honum var þá sagt upp störfum og skrifstofum hreppsins lokað. Síðan hasfa löggiltir endurskoðendur og lögregla unnið í bókhaldinu.

Litið er á brot Brynjólfs sem harmleik í eynni en þar hafa svona mál verið óþekkt til þessa og íbúarnir allir litið á sig sem eina fjölskyldu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×