Erlent

Fjöldi unglingsstúlknanna í Texas eru mæður eða óléttar

Samkvæmt upplýsingum frá Barnavernd Texas í Bandaríkjunum er fjöldi þeirra unglingsstúlkna sem teknar voru af búgarði sértrúarsafnaðar í Texas þegar orðnar mæður eða óléttar.

Alls voru 463 börn tekin af búgarðinum í Texas fyrr í mánuðinum. Þar á meðal voru 53 unglingsstúlkur á aldrinum 14 til 17 ára. Barnvernd Texas segir að þessar stúlkur séu allar þegar mæður eða óléttar eftir eldri meðlimi sértrúarsafnaðarins sem leggur stund á fjölkvæni. Talsmenn búgarðsins neita því að þessi börn og stúlkur hafi verið misnotaðar kynferðislega af safnaðarmeðlimum.

Málið komst upp er 16 ára stúlka hringdi í neyðarlínu fyrir misnotuð börn og sagði frá því að fimmtugur eiginmaður hennar hefði beitt hana líkamlegu ofbeldi og nauðgað henni. Í framhaldi af áhlaupi lögreglunnar á búgarðinn var öllum börnunum sem þar voru komið í forsjá barnaverndaryfirvalda eða fengin vist á fósturheimilum.

Leiðtogi sértrúarsafnaðarins er Warren Jeffs sem nú situr í fangelsi fyrir að samsekt að nauðgun en hann neyddi 14 ára stúlku til að giftast frænda sínum.

Safnaðarmeðlimir trúa því að karlmenn verði að eignast að minnsta kosti þrjár konur til að komast í himnaríki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×