Innlent

Skýrist fljótlega hvort leitað verður til Rússa og IMF

Geir H. Haarde forsætisráðherra á von á því að það skýrist áður en langt um líður hvort leitað verði eftir láni hjá Rússum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum vegna efnahagskreppunnar. Þetta sagði hann í samtali við fréttamenn eftir ríkisstjórnarfund í morgun.

Aðspurður um hugsanlega aðstoð Norðmanna sagði Geir að þeir hefðu verið vinsamlegir og Íslendingar mætu það mikils. „Við erum að skoða þetta allt í ákveðnu heildarsamhengi og það má ekki gleyma því að við höfum aðgang að ákveðnu lánsfé sem við höfum ekki nýtt okkur til fulls," sagði Geir og vísaði þar til gjaldeyrisskiptasamninga meðal annars við Norðmenn.

Spurður um stöðu mála gagnvart Rússum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sagði forsætisráðherra að hann ætti von á að þau mál skýrðust áður en langt um liði. Hann hefði sagt við erlenda blaðamenn í gær að stjórnvöld mynd reyna að komast að niðurstöðu varðandi Alþjóðagjaldeyrissjóðinn innan viku. Aðspurður um líkur á Rússaláni sagði Geir að þeir hefðu tekið Íslendingum vinsamlega og með jákvæðum hætti. Þá taldi hann það fjarlægan möguleika að taka upp myntsamstarf við Norðmenn þegar hann var spurður að því.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×