Lífið

Ella Dís styrkt með veglegum tónleikum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Ella Dís Laurens.
Ella Dís Laurens.

Margt verður um dýrðir á tónleikum til styrktar Ellu Dísar Laurens, tveggja ára gamallar stúlku með sjálfsofnæmi sem Vísir hefur fjallað reglulega um síðan í fyrra. Það er Inga Björg Stefánsdóttir, tónmenntakennari við Mýrarhúsaskóla á Seltjarnarnesi sem hefur veg og vanda af skipulagningu tónleikana.

„Nú viljum við bara fá fólk til að gleyma kreppunni og eiga notalega stund með frábærum listamönnum í Háskólabíói annað kvöld," segir Inga en tónleikarnir hefjast klukkan 20 annað kvöld í aðalsal bíósins.

Fjöldi listamanna kemur fram á tónleikunum og gefa þeir allir vinnu sína. Má þar nefna Pál Óskar, Diddú, Magna, Pál Rósinkrans, Jóhann Friðgeir, Bryndísi Ásmundsdóttur, Selmu, Jóhönnu Vigdísi, Huldu Björk Garðarsdóttur, Sigríði Beinteinsdóttur, Þórunni Lárusdóttur, Valgerði Guðnadóttur, Stefán Stefánsson, Margréti Eir og fleiri og fleiri.

Sárt að hún hafi áhyggjur af peningum líka

Undirleikurinn er svo í höndum hljómsveitar Karls Olgeirssonar sem Inga ber mjög vel söguna og segir drifkraft hans með ólíkindum. „Eini tíminn sem hann hefur til að vinna í þessu er á nóttunni og hann gerir það," segir hún.

„Manni finnst bara svo sárt að sjá að móðir Ellu Dísar þurfi að hafa áhyggjur af peningum líka ofan á allt annað," segir Inga sem rakst á frásögn móðurinnar, Rögnu Erlendsdóttur, á bloggsíðu hennar. Í athugasemdum á blogginu hafi svo einhver stungið upp á að halda styrktartónleika og Inga hafi ákveðið að demba sér beint í það verkefni.

„Auglýsingastofan Pipar hefur líka verið alveg æðisleg. Ég talaði við Sigga Hlö sem er að vinna þar og þeir hönnuðu allar útgáfurnar af plakatinu alveg ókeypis," bætir Inga við. Eins hafi stjórnendur Háskólabíós komið mjög ríkulega á móts við hana og öll framkvæmdin einkennst hreinlega af gleði og jákvæðni.

 

Miða á tónleikana má nálgast á midi.is og í miðasölunni í Háskólabíó.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.