Lífið

Gullbyssu úr góðkunnri Bond-mynd stolið

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Christopher Lee sem túlkaði Scaramanga fyrir tæpum 35 árum.
Christopher Lee sem túlkaði Scaramanga fyrir tæpum 35 árum. MYND/Andrew Shaw

Skammbyssunni gullslegnu, sem Christopher Lee brá í hlutverki skúrksins Scaramanga í James Bond-myndinni The Man With The Golden Gun árið 1974, var stolið í gær úr hirslu í Hertfordshire-myndverinu í Borehamwood, norður af London.

Lögregla rannsakar nú málið en byssan er metin á lítil 80.000 pund sem í núverandi efnahagsástandi gera rúmlega 15 milljónir. Það var Roger Moore sem fór með hlutverk breska njósnarans í annað skiptið í umræddri mynd en Sean Connery hafði þá sest í helgan stein eftir að hafa túlkað Bond í hinsta sinn í Diamonds are forever árið 1971.

Í myndverinu standa nú yfir tökur á nýjustu kvikmynd Nicholas Cage, Kick-Ass, og hefur fjöldi fólks því verið þar á ferð. Lögregla verst allra frétta af rannsókninni en gárungar benda henni á að gera húsleit heima hjá Christopher Lee sem túlkaði þrjótinn Scaramanga en sá hafði þrjár geirvörtur og drap andstæðinga sína með gullnum kúlum sem skotið var úr gullbyssu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.