Innlent

Vinnubrögð Sigrúnar Elsu og Sóleyjar sérkennileg

Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, er formaður framkvæmda- og eignaráðs Reykjavíkur.
Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, er formaður framkvæmda- og eignaráðs Reykjavíkur.

Óskar Bergsson, formaður framkvæmda- og eignaráðs Reykjavíkur, segir að sér komi á óvart á að sama tíma og meirihlutinn í borgarstjórn bjóði minnihlutanum upp á að vinna að fjárhagsætlun með sér skuli fulltrúar minnihlutans rísa upp í miðri vinnu og gefa út yfirlýsingu líkt og gert var í dag.

,,Þetta eru sérkennileg vinnubrögð á sama tíma og maður telur sig vera í einhverju samstarfi," segir Óskar.

Fyrr í dag fullyrtu Sigrún Elsa Smáradóttir og Sóley Tómasdóttir, fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna í framkvæmda- og eignaráði, að meirihlutinn í Reykjavík forgangsraðaði ekki í þágu mannaflsfrekra framkvæmda. Að þeirra mati vinnur meirihlutinn ekki eftir þeirri yfirlýstu stefnu sinni að nýta fyrirhugaða 6 milljarða lántöku borgarinnar í mannaflsfrekar framkvæmdir til að styðja við atvinnustig.

,,Ég held að oddvitar minnihlutafulltrúanna í Samfylkingu og Vinstri grænum verði að fara yfir það með sínu fólki hvort þau séu í raun og veru tilbúin að vinna að fjárhagsáætluninni sameiginlega með okkur eða hvort þetta séu merki um að þau séu að gefast upp á þeirri vinnu," segir Óskar.

Sóley og Sigrún Elsa segjast margsinnis hafa farið fram á það að framkvæmdir verði greindar eftir því hversu mannaflsfrekar þær eru. Þetta vilja þær að gert verði til að hægt sé að forgangsraða þeim framkvæmdum sem kalla á mestan mannafla. Slík greining hafi ekki farið fram og ekki standi til að verða við beiðni minnihlutans um slíka greiningu.

Óskar segir einfalda skýringu vera á þessum hluta málsins. ,,Eftir að þær voru nánast búnar að vera með einræðu á fundinum í morgun í þrjá klukkutíma og nýttu þann fjórða í bókanir þá var tíminn einfaldlega búinn."

Aðspurður hvort þær hafi ekki áður beðið um slíka greiningu áður segir Óskar svo ekki vera. ,,Nei. Enda voru þessi gögn sem þær eru að tala um ekki á dagskrá fundarins."


Tengdar fréttir

Fullyrða að ekki sé forgangsraðað í þágu mannaflsfrekra framkvæmda

Meirihluti borgarstjórnar vinnur ekki eftir þeirri yfirlýstu stefnu sinni að nýta fyrirhugaða 6 milljarða lántöku borgarinnar í mannaflsfrekar framkvæmdir til að styðja við atvinnustig. Þetta segja Sigrún Elsa Smáradóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, og Sóley Tómasdóttir, varaborgarfulltrúi Vinstri grænna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×