Innlent

Allt að 14 króna munur á bensínverði

MYND/GVA

Þótt öll olíufélögin séu nú búin að hækka eldsneytisverð er hlaupin samkeppni í bensínsöluna því munur á hæsta og lægsta bensínverði er allt að fjórtán krónum.

N1 reið á vaðið með hækkun á bensínlítra um fjórar krónur í fyrradag og hækkaði um lelið dísillítrann um sex krónur. Olís hækkaði svo báðar tegundirnar um sömu krónutölu og N1 í gær en í morgun var bensínhækkunin afturkölluð en olíuhækkunin stendur óbreytt.

Atlantsolía hefur ekkert hækkað bensínið en dísillítrinn þar hefur verið hækkaður um sex krónur. Samkvæmt heimasíðu Neytendasamtakanna kostar bensínlítrinn hjá N1 163 og 70 en 149 og 90 hjá Atlantsolíu við Hafnarfjarðarhöfn. Það er rétt tæplega 14 króna munur á lítra. Að vanda er svo verðið hjá Orkunni nokkrum aurum undir verðinu hjá Atlantsolíu.

Þetta er einhver mesti verðmunur á bensíni sé sést hefur á markaðnum hér til þessa. Í gær fór heimsmarkaðsverð á olíu niður fyrir 60 dollara á tunnuna, sem er lægsta verð í 19 mánuði, og heimsmarkaðsverð á olíu hefur lækkað um 60 prósent síðan í júlí. Lækkun krónunnar hefur hins vegar farið langleiðina með að éta upp ávinningin af þessari lækkun á heimsmarkaði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×