Innlent

Segir mótmælin hafa verið fámenn í dag

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra segir að gangan niður Laugaveg í dag hafi verið ákaflega fámenn. Aðeins nokkur hundruð manns hafi sinnt kallinu um þjóðfund á Arnarhóli. Hann segir trúverðugleika fjölmiðlamanna bíða hnekki, þegar þeir leitast við að mikla fjölda þátttakenda í mótmælum.

Þetta kemur fram á heimasíðu Björns í kvöld.

„Ég ók framhjá stjórnarráðshúsinu í þann mund, sem Eva Hauksdóttir efndi til vargastefnu eða svartagaldurs gegn ríkisstjórn og embættismönnum á blettinum framan við húsið. Fámennur hópur veifaði svörtum flöggum og einu rauðu og svörtu. Norðanvindurinn lék um fánana og var það eina lífsmarkið með þessu furðuverki. Ég skil ekki hvernig Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, sjónvarpsfréttamaður mbl.is, gat komist að þeirri niðurstöðu, að uppátækið hefði vakið „talsverða athygli" eins og hún orðaði það.

Trúverðugleiki fjölmiðlamanna bíður hnekki, þegar þeir leitast við að mikla fjölda þátttakenda í mótmælum, enda hljóta þau að snúast um annað en talningu á þeim, sem koma til þeirra - eða hvað? Gangan niður Laugaveg var ákaflega fámenn í dag og aðeins nokkur hundruð manns sinntu kalli um þjóðfund á Arnarhóli. Að honum loknum hélt hópur fólks að seðlabankahúsinu og inn í anddyri þess í óþökk húsráðenda og lögreglu. Mótmælendur hurfu af vettvangi án vandræða."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×