Lífið

From Oakland to Iceland sýnd á Airwaves

Steinþór Helgi Arnsteinsson skrifar
Dj Platurn þeytir skífum á einni Airwaves hátíðinni.
Dj Platurn þeytir skífum á einni Airwaves hátíðinni.

Heimildamyndin From Oakland to Iceland: A Hip-Hop Homecoming verður einn af dagskráliðum Iceland Airwaves hátíðarinnar í október.

Myndin fjallar um heimkomu íslenska plötusnúðsins Dj Platurn, sem heitir réttu nafni Illugi Magnússon, sem alist hefur upp í Kaliforníu og spilað þar við góðan orðstír. Leikstjóri myndarinnar er Ragnhildur Magnúsdóttir, systir Illuga.

„Framleiðendur myndarinnar leituðu til okkar og vildu sýna myndina í tengslum við hátíðina. Okkur þótti það sjálfsagt mál og fín hugmynd. Þetta er frábært einstaklingsframtak hjá Röggu og það verður skemmtilegt og fróðlegt að sjá þessa filmu," segir Þorsteinn Stephensen, framkvæmdastjóri Airwaves.

Hliðardagskráin í tengslum við Airwaves hefur alltaf verið að aukast undanfarin ár og telur Þorsteinn það jákvæða þróun. „Ég reikna með að framhald verði á þeirri aukningu en það er þó ekki sjálfgefið. Þetta veltur á framtaki og hugmyndarauðgi miðbæjarfólks. Við viljum hafa góðan standard á þeim viðburðum sem er boðið upp á og viljum bara vinna með fólki sem setur metnað í það sem það er að gera," útskýrir Þorsteinn og bætir við að sýning á From Oakland to Iceland sé gott dæmi um slíkt framtak. Hann nefnir sömuleiðis samstarfið við Sequenses í þessu samhengi.

„Við viljum þó ekki missa okkur í því að færast of langt frá meginmarkmiði hátíðarinnar sem er bjóða upp á góða tónlist."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.