Innlent

„Peningafalsarinn" fundinn

Frá sýningunni í Listaháskólanum.
Frá sýningunni í Listaháskólanum. MYND/Af heimasíðu Óðins.

Ráðgátan um Davíðsseðilinn er upplýst. Eins og greint var frá í morgun komst einhver óprúttinn aðili upp með að greiða fyrir vörur í verslun í Reykjavík með tíu þúsund króna seðli sem skartaði mynd af Davíð Oddssyni seðlabankastjóra. Seðillinn er vitanlega ekki löggildur enda enginn tíu þúsund króna seðill til enn sem komið er. Uppruna seðilsins má hins vegar rekja til lokaverkefnis í Listaháskóla Íslands í fyrra þegar Óðinn Þór Kjartansson, nemi í grafískri hönnun sýndi tvær fullar töskur af Davíðsseðlum.

„Þetta var lokaverkefnið mitt í Listaháskólanum," segir Óðinn Þór í samtali við Vísi. Hann segir að hugsunin á bakvið verkið hafi verið að gagnrýna ástandið í landinu. „Þetta var ákveðin gagnrýni á ástandið eins og það var þá. Þó að Davíð væri ennþá forsætisráðherra þá væri hann ennþá svona „Pútín", ennþá við völd. Þetta hefur nú eiginlega komið í ljós."

Óðinn var með tvær fullar töskur af peningunum á sýningunni en auk þess var þeim raðað á borð í sýningarsalnum. „Fólk hefur greinilega misskilið það eitthvað og haldið að það mætti taka þá," segir Óðinn. „Ég var nú ekkert að gera veður út af því þá og hafði í rauninni bara gaman af því að þetta færi í umferð. En mér datt ekki í hug að einhver kæmist upp með það að nota þetta," segir Óðinn. „Ég skil nú bara ekki hver er svo vitlaus að taka við þessu."

Óðinn Þór Kjartansson.

Óðinn segist hafa haft samband við lögregluna í morgun þegar hann frétti af málinu. „Þeir tóku bara vel í það og eru ekkert að leita að mér." Aðspurður hvort hann telji að um lögbrot sé ekki að ræða þegar „peningar" eru búnir til á þennan hátt segir Óðinn: „Ég er nú ekki alveg viss um það en ég kynnti mér þetta áður en ég gerði verkið og mér sýnist að þetta sé í lagi. Það eina sem gæti verið athugavert er að nafn Seðlabankans er á seðlinum. En þetta er ekki fölsun vegna þess að seðillinn er ekki til fyrir."

Óðinn segist hafa fengið ágætis einkunn fyrir verkið. „Það var líka gaman að sjá þetta í morgun og verkið fer víðar en ég bjóst við."

Listsköpun Óðins má kynna sér betur hér.








Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×