Innlent

Ákveðið að fækka ferðum strætós

Fargjöld verða ekki hækkuð samkvæmt nýrri rekstraráætlun Strætós bs. Þau hafa ekki hækkað síðan í ársbyrjun 2007.
Fargjöld verða ekki hækkuð samkvæmt nýrri rekstraráætlun Strætós bs. Þau hafa ekki hækkað síðan í ársbyrjun 2007. fréttablaðið/hari

Stjórn Strætós bs. hefur samþykkt að draga úr tíðni vagnanna á næsta rekstrarári í sparnaðarskyni. Ekki verða breytingar á gjaldskrá, sem hefur ekki hækkað síðan í ársbyrjun 2007, og sveitarfélögin sem standa að Strætó munu hækka framlög sín um 10 prósent. Þá fær fyrirtækið 100 milljóna króna framlag nú í ár.

Strætó hefur átt í vanda með rekstur sinn um nokkra hríð og sú staða hefur versnað. Vonast er til að viðbótarframlagið og niðurskurður leiða verði til þess að ekki þurfi að segja upp starfsfólki. Breytingarnar verða á álagstíma, en hann er skilgreindur til tíu á morgnana og milli 14 og 18 á daginn.

Jórunn Frímannsdóttir, stjórnarformaður Strætós, segir að verið sé að bregðast við breyttum aðstæðum. Í raun sé sigur að ekki hafi þurft að ganga lengra. „Það eru mörg sveitarfélög sem koma að rekstrinum og 10 prósenta hækkun er stór biti að kyngja fyrir þau. Með þessum tillögum erum við í raun að standa vörð um þjónustuna, en hún er ekki lögbundin fyrir sveitarfélögin.“

Jórunn segir að með breytingum í rekstri takist að koma í veg fyrir uppsagnir starfsfólks. „Við þurfum ekki að segja neinum upp miðað við þessa nýju rekstraráætlun og það er mjög ánægjulegt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×