Enski boltinn

Bruce harmar að hafa ekki keypt Zaki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Amr Zaki, leikmaður Wigan.
Amr Zaki, leikmaður Wigan. Nordic Photos / Getty Images

Steve Bruce, knattspyrnustjóri Wigan, sér eftir því í dag að hafa ekki fest kaup á Egyptanum Amr Zaki sem hefur slegið í gegn í ensku úrvalsdeildinni í haust.

Zaki er á mála hjá El Zamalek í heimalandi sínu sem fór fram á 7,25 milljónir punda fyrir hann í sumar. Niðurstaðan varð hins vegar sú að Zaki yrði lánaður til Wigan út tímabilið.

Nú hefur Zaki skorað sjö mörk í átta leikjum og er markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar. Ef Wigan ætlar sér að halda honum í sínum röðum er viðbúið að það þurfi að greiða enn hærri upphæð fyrir hann í vor.

Mörg félög í úrvalsdeildinni eru sögð hafa áhuga á Zaki og gæti það orðið þrautinni þyngri að halda honum hjá Wigan.

„Ég sagði Zamalek að ef þeir vildu fá svona háa upphæð fyrir hann þyrfti hann að spila fyrst í ensku deildinni. Verðið var of hátt og var ástæðan fyrir því að við fórum þessa leið."

„Ég var ekki reiðubúinn að borga uppsett verð. Það er alltaf mikil áhætta fólgin í því fyrir félag eins og okkar. Zamalek samþykkti svo lánssamninginn og hann hefur staðið sig vel. Því betur sem hann stendur sig því meira mun hann kosta."




Tengdar fréttir

Tíu hlutir sem þú þarft að vita um Amr Zaki

Amr Zaki er nýjasta stjarnan í ensku úrvalsdeildinni en þessum egypska framherja skaust upp á stjörnuhimininn nú í haust. Hann leikur með Wigan og hefur skorað sjö mörk í átta deildarleikjum til þessa á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×