Neyðarstjórn kvenna stóð að gjörningi á Austurvelli í dag þar sem styttan af Jóni Sigurðssyni var klædd í kjól með þjóðlegu ívafi. Var það gert til að minna á að frá upphafi byggðar á Íslandi hafa konur ávallt verið helmingur þjóðarinnar.
,,Svo er enn í dag. Hér eftir vilja konur að karlar og konur fari jafnt með völdin á öllum sviðum samfélagsins. NÚNA er rétti tíminn," segir í tilkynningu.
Neyðarstjórn kvenna var stofnuð þann 28. október síðastliðinn að frumkvæði kvenna sem þótti nóg um ástandið og vildu efla rödd kvenna í umræðunni. Hópurinn hefur vaxið hratt og eru nú um 2000 konur skráðar í Neyðarstjórn kvenna á Facebook.