Innlent

Treystir því að stjórnvöld skoði hugmyndir um einhliða upptöku annars gjaldmiðils

„Ég er mjög jákvæður í garð þessarar hugmyndar," segir Sigurður Kári Kristjánsson þingmaður Sjálfstæðisflokks. Hann vill að stjórnvöld skoði alvarlega þær hugmyndir sem upp hafa komið um að Ísland taki einhliða upp annan gjaldmiðil.

„Það hafa komið fram sjónarmið um að það gæti verið áhættuminna, einfaldara og ódýrara en að verja krónuna," segir Sigurður Kári og bætir við að aðrar þjóðir hafi gert þetta með góðum árangri. „Við erum á þeim stað að við höfum ekki efni á að útiloka neina möguleika."

„Mér finnst þetta gæti verið málamiðlunarleið milli ólíkra sjónarmiða sem hafa verið uppi. Annars vegar þeirra sem vilja ganga í Evrópusambandið og þeirra sem eru skeptískir en eru reiðubúnir að skoða upptöku annars gjaldmiðils," segir Sigurður. „Ég held að menn hljóti að vera reiðubúnir til að slíðra sverðin núna og mætast á miðri leið."

Sigurður segist ekki hafa rætt þessar hugmyndir sérstaklega við flokksforustuna, en hann treysti því að stjórnvöld skoði þessa hugmynd alvarlega. Hann muni leggja sitt af mörkum til þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×