Innlent

Ekkert selt á bak við luktar dyr

Búið er að tryggja að eignir ríkisbankanna verði ekki seldar bak við luktar dyr, heldur auglýstar svo mögulegir kaupendur sitji við sama borð. Allir helstu stjórnendur bankageirans á Íslandi voru boðaðir á fund viðskipta- og fjármálaráðherra í dag þar sem þetta var rætt.

Segja má að allir helstu toppar íslensks bankalífs hafi verið samakomnir í viðskiptaráðuneytinu í dag en fjármála- og viðskiptaráðherra boðuðu á fund til sín formenn skilanefnda, bankaráða, fulltrúa samkeppniseftirlitsins og fjármálaeftirlitsins. Formenn skilanefndanna hafa verið lítt fjölmiðlaglaðir og það breyttist ekki eftir fundinn í dag.

Ríkissjónvarpið fullyrti í gær að Landsbankinn hefði ákveðið að hafna tilboði Kaldbaks í Tryggingamiðstöðina, eða TM. Samkvæmt heimildum fréttastofu mun viðskiptaráðherra hafa illa sætt sig við að verið væri að selja eignir bankanna með þessum hætti - án þess að auglýsa eigurnar svo allir áhugasamir kaupendur hefðu möguleika á að bjóða í.

Fundurinn í dag mun hafa tryggt að nú verði tilkynnt opinberlega þegar bjóða á eigur bankanna til sölu, svo allir sitji við sama borð. Þannig sé búið að taka í taumana áður en stórslysin verði. Viðskiptaráðherra segir fjölmargt hafa verið rætt á fundinum en neitaði því að hann hafi verið að skamma skilanefndirnar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×