Innlent

Guðni viðurkennir að hafa umorðað ræðu sína

Steinþór Helgi Arnsteinsson skrifar

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, viðurkennir í samtali við Vísi að hann hafi umorðað ræðu sína um siðgæði í grunnskólum á Alþingisvefnum eftir að hann flutti hana í ræðustól Alþingis.

Í ræðu sinni lét Guðni eftirfarandi orð falla: „[...]það er ekki til neitt siðgæði í rauninni nema kristið siðgæði." Á vef Alþingis má hins vegar lesa ræðuna og þá hefur þessari setningu verið breytt en þar stendur: „Það er í rauninni ekki til neitt sem hefur bætt heiminn jafnmikið og kristið siðgæði."

Á þessa „fegrun" á orðum Guðna bendir Matthías Ásgeirsson, formaður Vantrúar, á bloggi sínu en meðlimir Vantrúar fóru einmitt mikinn í umræðunni um þessi mál.

Guðni segir að hann hafi fullan rétt á því að breyta orðum sínum með þessum hætti. „Ég breyti ræðum mínum sjaldnast en ég viðurkenni það fyrir þér sem heiðarlegur maður að þarna breytti ég aðeins um orðalag. Ég held að ég hafi gengið aðeins of langt og lengra en ég vildi í blaðlausri ræðu."

Guðni viðurkennir að orðin sem hann lét falla í ræðustólnum hafi verið of öfgafull og særandi en að það hafi hvorki verið ætlun sín né meining. „Ég er kristinn en ég virði aðra trúarflokka."

Breytingar á ræðum þingmanna, frá því að þær falla í ræðustólnum og þangað til þær enda á vefnum, eru víst algengar að sögn Guðna, enda er það réttur allra þingmanna að mega yfirfara sínar ræður. „Yfirleitt breyta menn ekki merkingunni mikið en þetta var heldur lengra en ég vildi og ég játa það."





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×