Innlent

Verið að drepa málum á dreif með tali um einhliða upptöku evru

MYND/Heiða

Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, segir að verið sé að drepa málum á dreif með því að velta upp hugmyndum um einhliða upptöku evru. Kostirnir séu í raun tveir, krónan og evran, og sú fyrrnefnda eigi sér nú fáa formælendur.

Heiðar Már Guðjónsson, framkvæmdastjóri hjá Novator, og Ársæll Valfells, lektor við Háskóla Íslands, rituðu um helgina grein í Fréttablaðið þar sem þeir lögðu til einhliða upptöku evru í stað þess að stór lán yrðu tekin til þess að reyna að bjarga krónunni.

Ágúst segir að með þessu sé í raun verið að drepa málunum á dreif. „Við eigum bara tvo kosti, annaðhvort höldum við í krónuna eða sækjum um aðild að Evrópusambandinu eins og allar þjóðir Evrópu hafa gert eða eru að gera," segir Ágúst.

Hann bendir á að hugmyndin að taka upp evru einhliða sé ekki ný af nálinni og til slíkra ráðstafana hafi hingað til aðeins verið gripið hjá þjóðum sem séu efnahagslega vanþróaðar og það séu Íslendingar ekki. „Í öðru lagi fengjum við ekki skjól hjá Seðalbanka Evrópu, í þriðja lagi er þetta kostnaðarsamt og í fjórða lagi fengjum við ekki þann aga í ríkisfjármálin sem aðild að myntbandalaginu myndi færa okkur," segir varaformaður Samfylkingarinnar.

Fáir ef nokkrir hafa trú á krónunni

Hann bendir að það sé eins og menn forðist aðild ESB og séu tilbúnir að skoða allt annað. Nefnir hann þar sem dæmi umræður um upptöku svissnesks franka og norskrar krónu. „Þetta staðfestir að fáir ef nokkrir aðilar hafa lengur trú á krónunni," segir Ágúst og bendir á að fjórir af fimm flokkum á þingi líti ekki á krónuna sem framtíðargjaldmiðil. „Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa allir opnað á norsku króna eins kjánalegt og það er. Í þeim orðum felst að þeir hafa ekki lengur trú á krónunni. Við þurfum að koma okkur upp úr þeim hjólförum sem við höfum verið í og nú þurfa flokkshagsmunir að víkja fyrir þjóðarhagsmunum og við þurfum að hefja þessa vegferð," segir Ágúst og á við aðild að ESB.

Hann bendir á að yfirlýsingin ein um aðildarviðræður gefi Íslandi traust og trúverðuglega gagnvart þjóðum heims og kröfuhöfum landsins. Ef ákveðið væri að fara þessa leið gætum við orðið aðilar að ESB á innan við ári og verið komin inn í svokallað ERM 2 samstarf fáum mánuðum eftir það. „ERM 2 er biðstofa evrunnar og þjóðir fara í það samstarf áður en þær taka upp evru. Þegar þangað er komið veitir Seðlabanki Evrópu okkur stuðning til að halda genginu stöðugu og þá erum yfir stærsta hjallann," segir Ágúst. „Þetta veltur allt á pólitískum vilja og það er kominn tími til að við tökum þessa ákvörðun," bætir hann við.


Tengdar fréttir

ESB-aðild og svo evra í stað einhliða upptöku evru

Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, telur að Íslendingar eigi að taka upp evruna í framhaldi af aðild að Evrópusambandinu fremur en að taka evruna einhliða upp líkt og lagt hefur verið til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×