Lífið

Hefur ekki áhuga á peningum Ástþórs

sev skrifar
„Ég hef áreiðanlegar heimildir fyrir því að ég verði næsti forseti Íslands. En það verður ekki í ár," segir Snorri Ásmundsson myndlistamaður, aðspurður um hvort hann hyggist bjóða sig fram til embættis forseta Íslands í annað sinn.

Frestur til að skila framboðum til forsetakjörs rennur út eftir tíu daga, og bjóði einhver sig fram gegn sitjandi forseta verða kosningar haldnar þann 28. júní. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hefur þegar lýst því yfir að hann sé tilbúinn að sitja áfram ef það sé vilji þjóðarinnar. Enginn annar hefur lýst yfir framboði en Ástþór Magnússon, sem tvisvar hefur boðið sig fram, hefur boðist til að greiða fyrir kosningarnar.

„Það skiptir máli hvaðan peningarnir koma," segir Snorri, sem hefur ekki áhuga á að þiggja það gylliboð. „Það er slæmt karma í kringum hann greyið kallinn. Ég óska þess nú innilega að hann nái tökum á lífi sínu og sínum sjúkdómi."

Nóg er að gera í myndlistinni hjá Snorra, og hann hefur því ekki haft tíma til að velta vöngum fyrir embættinu sem bíður hans að fjórum árum liðnum. „Þetta voru nú bara heimildir sem ég fékk, og ég er ekkert farinn að undirbúa mig þannig," segir Snorri, sem reiknar með því að þetta komi alltsaman náttúrulega. „Við flýjum ekki örlög okkar."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.