Innlent

Fjórum sinnum fleiri skoða flugfargjöld til Íslands vegna kreppunnar

Fjórum sinnum fleiri Bretar hafa skoðað flugfargjöld til Íslands á réttum mánuði miðað við mánuðinn þar á undan eða frá því að fregnir fóru að berast af veiku gengi krónunnar. Þetta kemur fram á ferðafréttavefnum Skyscanner.net sem fylgist með slíkri umferð á Netinu.

 

 

Þar kemur fram að þeir Bretar sem hafi orðið fyrir barðinu á íslensku efnahagskreppunni kunni eflaust ekki að meta það en þeir sem hyggi á ferðalög virðist hins vegar ætla að nýta sér mikla veikingu krónunnar að undanförnu. Gögn Skyscanner sýni að leit á Netinu að flugi frá Bretlandi til Íslands hafi aukist um 400 prósent frá því að fregnir fóru að berast af erfiðleikunum hér. Ferðaþjónustan hér á landi gæti því hugsanlega hagnast á bankakreppunni.

 

 

Skyscanner segir að verð á mat, drykk og gistingu hafi ekki breyst á Íslandi en hins vegar hafi veiking krónunnar þau áhrif að erlendir ferðamenn fái meira fyrir aurinn. Bent er á að í apríl hafi pundið kostað 143 krónur en nú kosti það yfir 220 krónur og því hafi Ísland orðið rúmlega 50 prósentum ódýrara nánast á einni nóttu fyrir ferðamenn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×