Innlent

Laun formanns VR verða endurskoðuð í næstu viku

Gunnar Páll Pálsson, formaður VR.
Gunnar Páll Pálsson, formaður VR.

Gunnar Páll Pálsson, formaður VR, segir að launamál sín séu í skoðun hjá launanefnd stjórnar. Hann segist þó ekki gera sér grein fyrir því hversu mikil launalækkun hans gæti orðið. ,,En það er verið að skoða þetta eitthvað svipað og hefur verið til umræðu hjá öðrum í samfélaginu," segir Gunnar Páll.

Hann segir að stjórnarfundur verði haldinn í næstu viku þar sem málið verði tekið til umræðu. Gunnar segir að laun sín fyrir formennsku í VR nemi 950 þúsund krónum, auk bifreiðahlunninda sem nemi líklega 150 þúsund krónum á mánuði. Samkvæmt Frjálsri Verslun voru mánaðarlaun Gunnars á síðasta ári 1700 þúsund, en hann sat sem kunnugt er í stjórn Kaupþings banka. Þar var hann fulltrúi Lífeyrissjóðs verzlunarmanna.  

Gunnar Páll segist ekki vita til þess hvort málið hafi verið rætt hjá forystumönnum annarra launþegahreyfinga. Vísir náði ekki tali af Gylfa Arnbjörnssyni, forseta ASÍ, við vinnslu þessarar fréttar. Þegar Vísir ræddi við hann á föstudag í síðustu viku sagði Gylfi að hann vissi ekki til þess að forystumenn launþegasamtaka hefðu rætt um að lækka við sig laun.

Samkvæmt tekjublaði Frjálsrar verslunar var Gylfi með 865 þúsund í mánaðarlaun á síðasta ári, en hann var þá framkvæmdastjóri ASÍ. Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ, var með 734 þúsund krónur á mánuði, Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, var með 802 þúsund krónur á mánuði, Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, var með 699 þúsund krónur á mánuði og Árni Stefán Jónsson, formaður SFR, með 809 þúsund krónur á mánuði.








Tengdar fréttir

Forystumenn launþegasamtaka hafa ekki rætt launalækkun

Forystumenn helstu launþegasamtaka hafa ekkert rætt um að lækka við sig launin, að sögn hafa forystumenn launþegasamtakanna eitthvað rætt um að lækka launin hjá sér. „Ekki veit ég til þess að það hafi eitthvað verið rætt,"




Fleiri fréttir

Sjá meira


×