Innlent

Forystumenn launþegasamtaka hafa ekki rætt launalækkun

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.

Forystumenn helstu launþegasamtaka hafa ekkert rætt um að lækka við sig launin, að sögn Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ. „Ekki veit ég til þess að það hafi eitthvað verið rætt," segir Gylfi. Aðspurður hver laun helstu forsvarsmanna launþegahreyfingarinnar eru vísaði Gylfi á Frjálsa verslun.

Í nýjasta tekjublaði Frjálsrar verslunar kemur fram að Gunnar Páll Pálsson, formaður VR, var með 1708 þúsund krónur í mánaðarlaun á síðasta ári. Gylfi var með 865 þúsund á mánuði, en hann var þá framkvæmdastjóri ASÍ. Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ, var með 734 þúsund krónur á mánuði, Guðmundur Gunnarsson var með 802 þúsund krónur á mánuði, Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, var með 699 þúsund krónur á mánuði og Árni Stefán Jónsson, formaður SFR, með 809 þúsund krónur á mánuði.

Fjölmörg fyrirtæki hafa skert tekjur starfsmanna sinna að undanförnu um allt að 10%. Nú síðast greindi Morgunblaðið frá því að starfsmönnum Sjóvar hefðu verið kynnt slík áform. Þar lækka laun almennra starfsmanna um 8% en yfirstjórnenda um 12%. Kjararáð situr nú á fundi og ræðir mögulega launalækkun æðstu embættismanna ríkisins.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×