Innlent

Einkaþoturnar horfnar af Reykjavíkurflugvelli

Engin einkaþota var á Reykjavíkurflugvelli í dag, en fyrir um ári mátti hins vegar sjá þar á annan tug slíkra flugvéla. Einhver fækkun hefur orðið á ferðum einkaþotna til og frá landinu, en á óvart kemur þó hve tíðar ferðirnar eru enn.

Auðmenn og viðskiptajöfrar hófu að nota einkaþotur í miklum mæli á uppgangstímum í efnahagslífi þjóðarinnar. Þegar mest lét gat á annan tug slíkra flugvéla verið á afmörkuðu svæði á Reykjavíkurflugvelli, en nú er öldin önnur. Í morgun, þegar fréttastofan var á ferðinni, var engin einkaþota sjáanleg, sem segir sína sögu um þær breytingar sem orðið hafa.

Þegar rýnt er í tölur um millilandaflug um Reykjavíkurflugvöll og skoðaðar svokallaðar aðrar hreyfingar - sem flug einkaþotna fellur undir - kemur í ljós að í október 2007 fóru einkavélar 236 sinnum um völlinn en í október nú í ár 212 sinnum.

Athygli vekur að í september síðast liðnum var umferð einkaþotna nokkuð meiri en í sama mánuði fyrra og má ætla að það sé vegna þess að ferðir athafnamanna hafi verið tíðar á milli landa, þegar verið var að reyna að slökkva elda vegna hruns bankakerfisins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×