Innlent

Hundruð milljóna föst í kerfinu

Illa gengur hjá útflutningsaðilum að fá greitt fyrir vörur sínar þar sem erlendir bankar hafa margir fryst greiðslur hingað til lands. Talið er að mörg hundruð milljónir króna séu fastar í kerfinu.

Utanríkisviðskipti hafa nánast verið í lamasessi síðan ríkið tók yfir viðskiptabankana í síðustu viku. Illa gengur hjá útflutningsaðilum að fá greitt fyrir vörur og þá hafa innflutningsaðilar ekki fengið gjaldeyri til að greiða sína reikninga.

Svokölluð swift-númer á íslenskum reikningum hafa verið gerð óvirk sem þýðir að ómögulegt er að millifæra peninga til og frá landinu. Margir erlendir bankar hafa því stöðvað millifærslur með þeim afleiðingum að mörg hundruð milljónir króna í erlendri mynt eru nú fastar í kerfinu og komast hvorki lönd né strönd.

Námsmönnum erlendis gengur illa að millifæra peninga og líða margir nú alvarlegan skort. Nánast ómögulegt er fyrir almeninng að kaupa gjaldeyri hér á landi og í einum banka - sem fréttastofa hafði samband við - voru hvorki til evrur né dollarar.

Hjá Seðlabanka Íslands fengust þær upplýsingar að unnið sé að því að leysa vandann og fólk beðið um að sýna biðlund.

Bankinn greip í morgun til þess úrræðis að bjóða út 25 milljónir evra á uppboði til fjármálafyrirtækja til að reyna að ákvarða gengi krónunnar. Hæsta kauptilboðið nam 160 krónum á evru en lægsta tæpum 150 krónum.

Fram kemur í tilkynningu frá Seðlabankanum að um bráðafyrirkomulag gjaldeyrisviðskipta sé að ræða. Uppboð verða haldin daglega og mun gengi krónunnar ráðast af framboð og eftirspurn gjaldeyris hverju sinni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×