Fótbolti

Undanúrslit Afríkueppninnar í dag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Samuel Eto'o, leikmaður Kamerún, er markahæsti leikmaður keppninnar með fimm mörk til þessa.
Samuel Eto'o, leikmaður Kamerún, er markahæsti leikmaður keppninnar með fimm mörk til þessa. Nordic Photos / AFP

Í dag fara fram undanúrslitaviðureignirnar í Afríkueppninni en leikirnir verða í beinni útsendingu á Eurosport.

Heimamenn í Gana mæta Kamerún klukkan 17.00 og kl. 20.30 mætast Afríkumeistarar Egyptalands liði Fílabeinsstrandarinnar.

Egyptaland og Fílabeinsströndin mættust í úrslitaleik keppninnar fyrir tveimur árum þegar hún var haldin í Egyptlandi. Þá þurfti vítaspyrnukeppni til að knýja fram úrslit.

Michael Essien verður fyrirliði Gana í fjarveru John Mensah sem missir af leiknum í dag þar sem hann mun taka út leikbann. Þetta hefur einnig mikil áhrif á varnarleik liðsins en í sókn Kamerún er hinn stórhættulegi Samuel Eto'o.

Claude Le Roy, þjálfari Gana, hefur gefið í skyn að hann kunni að nota Essien í stöðu miðvarðar til að hafa hemil á Eto'o. Essien hefur hins vegar spilað á miðjunni til þess og skorað tvö mörk í síðustu tveimur leikjum.

Þá er sóknarmaðurinn Asamoah Gyan tæpur vegna meiðsla og er því ljóst að það verður á brattann að sækja hjá heimamönnum.

Kamerúnar voru afskrifaðir á mótinu eftir að þeir töpuðu 4-2 fyrir Egyptum í fyrstu umferð riðlakeppninnar. Síðan þá hafa þeir skorað ellefu mörk í þremur leikjum en liðið vann Túnis í framlengdum leik í fjórðungsúrslitum.

Bæði lið hafa fjórum sinnum unnið þessa keppni en Egyptar hafa oftast unnið, fimm sinnum.

Egyptar þurfa þó að leggja sterkt lið Fílabeinsstrandarinnar af velli til þess að eiga möguleika á þeim sjötta. Síðarnefnda liðið hefur vitanlega ekki gleymt úrslitaleiknum fyrir tveimur árum og vilja sjálfsagt hefna þeirra úrslita.

Búist er við því að Kolo Toure verði klár í slaginn en hann missti af leik Fílabeinsstrandarinnar í fjórðungsúrslitum er liðið vann sigur á Gíneu, 5-0.

Egyptar eru enn taplausir á mótinu en þeir unnu nauman sigur á Angóla í fjórðungsúrslitum, 2-1. Það er þó áhyggjuefni fyrir þá að sóknarmaðurinn Mohamed Zidan er tæpur vegna meiðsla en hann skoraði tvívegis í sigri þeirra á Kamerún.

Fílabeinsströndin hefur unnið alla sína leiki á mótinu en deilan í kringum Didier Drogba og kjör knattspyrnumanns ársins í Afríku kann að hafa ófyrirséð áhrif á liðið í dag.

Starfsmenn og leikmenn liðsins neituðu að tjá sig við fjölmiðla á þriðjudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×