Lífið

Ultra Mega Technobandið Stefán á forsíðu Myspace

Breki Logason skrifar
Sigurður í góðum gír með Ultra Mega technobandinu Stefán.
Sigurður í góðum gír með Ultra Mega technobandinu Stefán.

Sigurður Ásgeir Árnason söngvari í Ultra Mega Technobandinu Stefán segist hafa vaknað upp einn daginn með mörg þúsund heimsóknir á Myspace síðu hljómsveitarinnar. Ástæðan er sú að sveitin var á forsíðu Myspace samfélagsins. Hann boðar nýjar stefnur hjá hljómsveitinni.

„Við vorum í sambandi við sænskan náunga sem heitir Andreas og sér um markaðsmálin fyrir Myspace í Svíþjóð. Hann var að vinna aðeins með Sigur Rós og vantaði eitthvað til þess að setja á forsíðuna. Þeir bentu víst eitthvað sérstaklega á okkur," segir Sigurður en á forsíðu Myspace þar sem allir fara sem ætla að skrá sig inn er að sjá auglýsingu um nýju plötu bandsins.

„Þetta var fyrir um fjórum mánuðum og við lofuðum honum að platan yrði tilbúin en henni seinkaði aðeins. Við spiluðum samt bara með og settum ómasteraða plötu inn," segir Sigurður en þetta er hluti af markaðsherferð sem strákarnir eru að fara í.

Hann segir hljómsveitina vilja halda erlendum "kontöktum" frá fjölmiðlum því hljómsveitin var gagnrýnd á dögunum fyrir að hafna tilboðum frá Universal í Þýskalandi.

„Þeir ætluðu að búa til einhverja þýska súpergrúbbu úr okkur. Voru með hugmyndir um að gera teknó útgáfuna af Linkin park sem okkur leist ekkert á. Við sögðum því bara nei en þá urðu allir brjálaðir hérna heima á Íslandi," segir Sigurður og tekur fram að strákarnir í bandinu séu mjög stóískir og lítið að stressa sig á hlutunum.

„Við erum nú samt búnir að komast ótrúlega langt á mjög skömmum tíma og miðað við aldur. Erum búnir að gefa út plötu og vera í fjölmiðlum bæði úti og hérna heima."

„Kannski komum við bara fljúgandi í loftbelg"
Hér má sjá auglýsinguna á Myspace.

Sigurður segir að bandið muni þó koma fólki á óvart í sumar. „Við höfum verið svona partý technoband en ætlum að breyta aðeins núna. Okkur hlakkar mikið til þess að heyra í gagnrýnendum sem munu örugglega brjálast yfir þessari pötu. Við hinsvegar lofum einu heilsteyptasta verki sem hefur komið fram hér á landi. Við erum að vinna þetta svolítið svona í hugmyndafræðilegu samhengi. Hérna heima er þetta bara alltaf sama formúlan sem við könnumst ekkert við."

En mega íslenskir aðdáendur ekki eiga von á að heyra í Ultra Mega Technobandinu Stefán í sumar?

„Jú, jú, við getum sagt að við verðum í sviðsljósinu. En hvernig það verður kemur bara í ljós. Kannski komum við bara fljúgandi í loftbelg."

Hægt er að skoða Myspacesíðu hljómsveitarinnar hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.