Erlent

Mandelson situr sem fastast

Óli Tynes skrifar
Peter Mandelson.
Peter Mandelson.

Peter Mandelson viðskiptaráðherra Bretlands segir ekki koma til greina að hann segi af sér embætti vegna samskipta sinna við rússneska auðkýfinginn Oleg Deripaska.

Mandelson hefur verið gagnrýndur í breskum fjölmiðlum fyrir að hafa fundað með Deripaska um borð í lystisnekkju rússans. Mandelson var þá viðskiptastjóri Evrópusambandsins og reglur þess hafa mikil áhrif á viðskiptaveldi Deripaskas.

Mandelson segir ekkert hafa verið að athuga við fundi sína með Rússanum þeir hafi verið eins og gengur og gerist þar sem kaupsýslumenn og stjórnmálamenn hittast.

Peter Mandelson er stundum kallaður Myrkrahöfðinginn í breskum stjórnmálum. Hann hefur tvisvar þurft að segja af sér ráðherraembætti vegna hneykslismála.

Hann hefur verið viðskiptastjóri Evrópusambandsins undanfarin ár en sneri heim í síðasta mánuði til að taka við embætti viðskiptaráðherra og hjálpa Bretlandi í gegnum kreppuna.

Evrópusambandið hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem segir að því sé ekki kunnugt um að nokkrar reglur hafi verið brotnar eða hagsmunaárekstrar orðið með fundum Mandelsons með Deripaska.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×