Innlent

Framsóknarmenn í Suðvesturkjördæmi vilja í ESB

Kjördæmisþing framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi vill að hafnar verði viðræður við Evrópusambandið um aðild að sambandinu og upptöku evru. Þetta kemur fram í ályktun frá þinginu sem samþykkt var í gærkvöld.

Þar gagnrýna framsóknarmenn í Suðvesturkjördæmi einnig ríkisstjórnina fyrir ómarkviss vinnubrögð og ósönn og óheppileg ummæli á ögurstundu í efnahagslífi þjóðarinnar. Ríkisstjórnin verði að fara með völd sín af varúð og sýna Alþingi og kjörnum fulltrúum þá virðingu að réttmæt ákvarðanataka fari þar fram í stað þess að fámennir fulltrúar framkvæmdavaldsins gegni aðalhlutverki. Nú sé lag fyrir stjórnvöld að byggja upp nauðsynlega samstöðu þjóðarinnar með samvinnu, samræðum og gagnsæi að leiðarljósi.

 

„Sterkur þingmeirihluti ber mikla ábyrgð og fer með mikil völd en samráðsleysi við stjórnarandstöðu og helstu hagsmunaaðila atvinnulífs, verkalýðshreyfingar og sveitarstjórnarvettvangs gengisfellir þennan sama meirihluta og bitnar á árangri við erfiðar aðstæður.

 

Bæti stjórnvöld ekki ráð sitt ættu þau að sjá sóma sinn í að viðurkenna að þau valdi ekki verkefni sínu og biðjast lausnar þannig að unnt sé að boða til kosninga og tryggja að ábyrgir aðilar taki við stýrinu og sigli þjóðarskútunni í örugga höfn," segir í ályktuninni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×