Innlent

Geð- og kvensjúkdómalæknar spá í spilin

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Landspítalinn við Hringbraut.
Landspítalinn við Hringbraut.

„Konan á frjósemisskeiði til tíðahvarfa" var yfirskrift ráðstefnu sem Geðlæknafélag Íslands stóð fyrir á Hótel Sögu á laugardag í samvinnu við Félag íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna. Fjallað var um geðheilsu kvenna í tengslum við tíðahvörf, notkun geðlyfja við meðgöngu auk notkunar hormóna til að létta konum lífið á breytingaskeiði.

Gestafyrirlesarar voru Hadine Joffe, sérfræðingur í geðlækningum við Massachusetts General Hospital, og Svend O. Skouby, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla, og ræddu þau um landamæri geðlæknisfræði og kvensjúkdómafræði og ávinning og áhættu samfara hormónanotkun.

Ræddi Skouby um hjartasjúkdóma, brjóstakrabbamein og aðra áhættuþætti er fylgt hafa svokallaðri blandaðri hormónameðferð. Meginniðurstaða hans var að mun minni áhætta væri samfara hormónanotkun nú til dags, einkum ef hormónar væru gefnir í mjög litlum skömmtum.

Geðlyf á meðgöngu

Guðlaug Þorsteinsdóttir geðlæknir ræddi um vanlíðan kvenna vegna fyrirtíðaspennu og fæðingarþunglyndis og meðhöndlun slíkra kvilla með þunglyndislyfjum og Halldóra Ólafsdóttir, yfirlæknir á geðdeild Landspítala, ræddi um notkun geðlyfja á meðgöngu og við brjóstagjöf.

Auk þess ræddi Jens Guðmundsson, yfirlæknir á kvennadeild Landspítala, um breytingar á notkun hormóna í ljósi rannsóknar Women's Health Initiative sem ætlað var að meta áhrif estrógenmeðferðar og samsettrar hormónameðferðar á heilsu kvenna.

Kristófer Þorleifsson, formaður Geðlæknafélags Íslands, sagði slíkar þverfaglegar ráðstefnur á sviði læknisfræðanna hafa færst nokkuð í vöxt hin síðari ár. Tæplega 70 gestir hefðu sýnt sig á laugardaginn og ráðstefnan verið allrar athygli verð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×