Innlent

Áætlanir um lækkun matvælaverðs gengu ekki eftir

Þær áætlanir fyrrverandi ríkisstjórnar um að lækka matvælaverð um allt að 14-16 prósent með ýmsum aðgerðum í fyrra gengu ekki eftir. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu viðskiptaráðuneytisins um verðþróun á matvælum og veitingum í tengslum við aðgerðir ríkisstjórnarinnar.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins kynnti í byrjun október 2006 ýmsar aðgerðir til lækkunar á matvælaverði og ýmsum öðrum þjónustuliðum. Aðgerðirnar fólu í sér að lækka og samræma virðisaukaskatt, afnema vörugjald á tilteknum vöruflokkum og lækka tolla á kjötvörum.

Gert var ráð fyrir að matvælaverð gæti lækkað um allt að 14-16 prósent og vísitala neysluverðs um 2,3 prósent. Þá var gert ráð fyrir því að lækkun virðisaukaskatts á öðrum vörum og þjónustu, eins og hótelgistingu og veitingum, gæti leitt til 0,4 prósent lækkunar þannig að neysluverðsvísitalan myndi lækka um 2,7 prósent á árinu.

Viðskiptaráðuneytið hefur nú tekið út áhrif þessara breytinga. Í greinargerð um málið kemur fram flestir aðilar hafi spáð því að lækkun virðisaukaskatts myndi að meðaltali leiða til um 7,5-8 prósenta lækkunar strax í mars í fyrra þegar aðgerðirnar tóku gildi og samtals um 9-9,5 prósenta lækkunar þegar niðurfelling vörugjalda hefði skilað sér að fullu út ísamfélagið í apríl/maí 2007. Verð á veitingahúsum átti samkvæmt mælingum að lækka að meðaltali um 8 prósent. Gert var ráð fyrir að heildaráhrif aðgerðanna mundu lækka vísitölu neysluverðs um 1,9 prósent.

Spá manna um tæplega átta prósenta lækkun gekk eftir á fyrsta mánuðinum. Bent er á að í apríl og maí í fyrra hafi verð flestra mat- og drykkjarvara lækkað aftur um 0,5 til eitt prósent sem skýrist af niðurfellingu vörugjalda en hins vegar var gert ráð fyrir að sú ákvörðun mundi til viðbótar leiða til 1,3-2 prósenta lækkunar. „Ljóst er því að afnám vörugjalda skilaði sér ekki að fullu til neytenda," segir í skýrslunni.

Bent er á að mat- og drykkjarvörur hafi fyrir lok árs 2007 lækkað um rúmlega tvö prósent en um fjögur prósent miðað við tólf mánaða mælingu. Ljóst sé því því, eins og oft hafi komið fram, að upphaflegt markmið um heildaráhrif sem næmi um 14-16 prósentum lækkun gengu ekki eftir.

Ósvarað hvers vegna vörur lækkuðu ekki meira

Þegar mat- og drykkjarvörum var skipt upp í annars vegar flokk innfluttra vara og hins vegar flokk innlendra vara kom í ljós að í byrjun árs 2007 hækkuðu báðir flokkarnir sem má að einhverju leyti skýrast af hækkun hráefnisverðs og launaskriðs. Í mars lækkuðu síðan báðir flokkarnir að meðaltali um sex prósent. Í maí hækkuðu aftur innfluttar vörur um tvö prósent en innlendar vörur um hálft prósent.

„Á þessum tíma hafði gengi krónunnar styrkst verulega, verð á hrávörum á heimsmarkaði var í hægu hækkunarferli að undanskildum sykri sem var að lækka og launakostnaður hafði lítið breyst frá því snemma á árinu. Þótt hækkun hrávöruverðs hafi að nokkru leyti vegið upp gengisáhrifin er ósvarað hvers vegna matvörur lækkuðu ekki meira í mars og hvers vegna margar þeirra hækkuðu í maímánuði," segir í skýrslunni.

 

Þær vörur sem lækkuðu hvað mest í mars voru gosdrykkir (18%) og sætindi (11%) en þessar vörur báru áður 24,5% virðisaukaskatt. Minnst lækkaði verð á kjöti (4-5%) sem þýðir að tollalækkunin á kjöti skilaði sér ekki skila sér. Meðallækkun á öðrum vörum var um 6 prósent.

Mest hækkuðu ávextir og fiskur eða um átta prósent á tímabilinu frá mars til október 2007 og næst mest kjötvörur um fjögur prósent. Gos, kaffi og sætindi hækkuðu líka en mun minna eða á bilinu 1-2,5 prósent sem var í takt við almenna verðþróun að sögn skýrsluhöfunda. Verð á mjólkurvörum stóð hins vegar nánast í stað.

Þá segir einnig í skýrslunni að erfitt sé að meta hvar áhrif virðisaukaskattslækkana hafi komið mest og minnst fram hjá veitingastöðum. Almennt lækkaði verð á veitingum um tæplega fjögur prósent í marsmánuðinum en gert var ráð fyrir að lækkunin gæti orðið um átta prósent. „Talsvert vantaði því upp á að lækkunin skilaði sér út í samfélagið. Frá maí og út tímabilið hækkuðu veitingar um tæplega 2% sem er ekki úr takt við hækkanir á matvörumarkaðnum," segir enn fremur í skýrslunni.

Skýrsluna má nálgast hér




Fleiri fréttir

Sjá meira


×