Innlent

Þingmaður Sjálfstæðisflokks vill skoða einhliða upptöku evru

„Óvenjulegar aðstæður eins og nú eru uppi kalla að mínu mati á óvenjulegar lausnir," skrifar Sigurður Kári Kristjánsson þingmaður sjálfstæðisflokks sem bloggar í dag um þær tillögur hagfræðinga að Ísland taki einhliða upp evru.

Hagfræðingarnir Heiðar Már Guðjónsson, framkvæmdastjóri hjá Novator, og Ársæll Valfells, lektor við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, skrifuðu grein í Fréttablaðið um helgina þar sem þeir lögðu til einhliða upptöku evru í stað þess að stór lán yrðu tekin til þess að reyna að bjarga krónunni.

Fjöldi fjármálaspekúlanta hefur síðan tjáð sig um málið. Daniel Gros, forstöðumaður Center for European Studies í Brussel, sem aðstoðaði Svartfellinga við einhliða upptöku evru sagðist í samtali við Fréttablaðið sammála meginrökum Heiðars og Ársæls. Það var Edda Rós Karlsdóttir hagfræðingur einnig í grein sem hún ritaði í Fréttablaðið á mánudag.

Sama dag ritar Manuel Hinds, fyrrverandi fjármálaráðherra El Salvador og efnahagsráðgjafi meðal annars hjá Alþjóðabankanum, grein í blaðið þar sem hann segir gjaldeyrisforða landsins duga með afgangi fyrir einhliða upptöku evru. Því væri hægt að nota erlend lán til að byggja upp efnahagslífið í stað þess að byggja undir veikan gjaldmiðil.

„Miðað við þau viðbrögð sem fram hafa komið við hugmyndum Heiðars Más og Ársæls þá hljóta hugmyndir þeirra að koma til skoðunar við þær aðstæður sem nú eru uppi í efnahagsmálum þjóðarinnar," ritar Sigurður Kári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×