Innlent

Verja þarf kannabismeðferð fyrir ungmenni

MYND/Heiða

Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi, segir að búast megi við því að þegar kreppi að muni margir freistast til þess að hefja ræktun á kannabisjurtum. Hann hvetur jafnframt til þess að tryggð verði áfram meðferð fyrir yngstu kannabisneytendurna hjá SÁÁ.

Í pistli á heimasíðu félagsins segir Þórarinn og kannabisefni, hass og marijúana, hafi lengi verði algengasta ólöglega vímuefnið hér á landi og þá hafi ræktun á maríjúana færst í vöxt á síðustu árum. Talið er að sex af hverjum tíu ungmennum noti þessi efni fyrir tvítugt og um fjögur prósent allra unglinga koma til meðferðar á Vogi vegna slíkrar fíknar.

Þórarinn segir mikið í húfi í fjárhagsþrengingum SÁÁ að halda áfram viðamikilli meðferð fyrir þennan hóp en undanfarin ár hafa rúmlega 200 unglingar komið á Vog á hverju ári á aldrinum 14-19 ára. Þeir verði fleiri í ár en í fyrra en ekki hafi verið biðlistar í þessa meðferð. „Nú þarf sérstakt átak til að verja þessa meðferð því meðferð ungra kannabisfíkla áður en þeir ánetjast um of öðrum vímuefnum eins og örvandi efnum og ópíumefnum hefur sýnt sig að bera mjög góðan árangur og hefur því gríðarlegt forvarnargildi," segir Þórarinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×