Innlent

Mótmælin gegn VR halda áfram

Frá mótmælastöðu við höfuðstöðvar VR í hádeginu í gær. MYND/Vilhelm
Frá mótmælastöðu við höfuðstöðvar VR í hádeginu í gær. MYND/Vilhelm

,,VR stendur fyrir virðingu og réttlæti. Það er það sem formaðurinn og stjórnin ættu að hafa í heiðri," segir Lúðvík Lúðvíksson, félagi í VR, sem staðið hefur fyrir mótmælastöðu við höfuðstöðvar félagsins undanfarna daga. Þeim verður haldið áfram þangað til Gunnar Páll Pálsson lætur af embætti formanns, að sögn Lúðvíks.

Gunnar Páll liggur undir þungu ámæli fyrir að hafa setið í stjórn Kaupþings - sem fulltrúi Lífeyrissjóðs VR - og tekið þátt í því í septemberlok að fella niður persónulegar ábyrgðir starfsmanna sem höfðu keypti hluti í bankanum og tekið til þess lán. Þá hefur komið í ljós að Gunnar Páll fékk 6,2 milljónir króna fyrir að sitja stjórnarfundi hjá gamla Kaupþingi á síðasta ári.

Í yfirlýsingu Gunnars Páls frá 9. nóvember segir að ýmsir félagsmenn hafi gagnrýnt ákvörðun sína en hann hefi reynt eftir fremst megni að svara spurningum þeirra og athugasemdum á heiðarlegan hátt. ,,Því mun ég halda áfram á næstunni auk þess að ræða opinskátt við VR félaga á vinnustaðafundum."

Lúðvík gagnrýnir vinnustaðaheimsóknir Gunnars Páls. ,,Núna fer hann á kostnað okkar félagsmanna í VR í vinnustaðaheimsóknir í kosningaherferð. Það er spurning hvort hann ætti ekki að bjóða einhverju okkar með sér svona til að gæta jafnræðis."




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×