Innlent

Vinna að nýjum stjórnarsáttmála ekki hafin

Geir H. Haarde formaður Sjálfstæðisflokksins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar undirrituðu núverandi stjórnarsáttmála í Ráðherrabústaðnum á Þingvöllum 23. maí 2007.
Geir H. Haarde formaður Sjálfstæðisflokksins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar undirrituðu núverandi stjórnarsáttmála í Ráðherrabústaðnum á Þingvöllum 23. maí 2007.

Þeim fer fjölgandi í röðum Samfylkingarinnar sem telja nauðsynlegt að stjórnarsáttmáli ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar verði tekinn upp og endurskrifaður. Ríkisstjórnin hafi verið mynduð um flest annað en það sem nú blasir við í þjóðfélaginu. Yfirstandandi efnahagsþrengingar og fall bankanna kalli á að stjórnin komi sér saman um framtíðarsýn og um leið nýjan stjórnarsáttmála.

Undanfarnar vikur hefur flokkanna einkum greint á um traust til yfirstjórnar Seðlabankans og hugsanlegar aðildarviðræður við Evrópusambandið. Hávær krafa er um það innan Samfylkingarinnar að seðlabankastjórarnir víki og alvarlega verði rætt um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki viljað ljá máls á því.

Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra sagði í umræðum á Alþingi 15. október að endurskoða yrði stjórnarsáttmálann með tilliti til afstöðunnar til Evrópusambandsins. ,,Vissulega var ekki samið um þetta meðal stjórnarflokkanna en þjóðfélagið er breytt frá því sem það var í gær," sagði Jóhanna þá. Hún sagði að ekkert ætti að vera ,,tabú" og allir yrðu að skoða aðild að sambandinu með opnum hug.

Forystumenn ríkisstjórnarflokkanna voru spurðir um málið á fundi með blaðamönnum í hádeginu og hvort byrjað væri að vinna að nýjum stjórnarsáttmála. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir svaraði og sagði einfaldlega: ,,Sú vinna er ekki hafin."

Núverandi stjórnarsáttmáli var undirritaður af Ingibjörgu Sólrúnu og Geir H. Haarde á Þingvöllum 23. maí 2007.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×