Innlent

Ákvæði um litla Landssímamanninn í frumvarpi um bankarannsókn

MYND/Pjetur

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra kynnti í morgun á opnum fundi allsherjarnefndar Alþingis frumvarp um embætti sérstaks saksóknara sem rannsaka á aðdraganda bankahrunsins.

Björn fór yfir þau mál sem hann hyggst leggja fyrir þingið í vetur en auk frumvarps um sérstakan saksóknara er það frumvarp um breytingar á hegningarlögum, frumvarp um kirkjugarða, um framsalsmál og frumvarp til vopnalaga sem er til umsagnar. Þá sagði ráðherra von á breytingum á lögum um happdrætti en skerpa þyrfti forræði okkar yfir happrdrættismálum og ynni nefnd að tillögum þar um.

Björn fór frekar yfir frumvarpið um embætti sérstaks saksóknara sem á að annast rannsókn á hugsanlegri refisverðri háttsemi í aðdraganda hruns íslensku bankanna. Frumvarpið hefðiverið kynnt og samþykkt í þingflokkum stjórnarflokkanna um helgina. Sagði Björn að rannsókn embættisins snerist að hugsanlegum efnahags, auðgunar- og skattalagabrotum. Gert væri ráð fyrir að kærum vegna meintrar refsiverðrar háttsemi vegna bankahrunsins yrði vísað til þessa tímabundna embættis.

Þá kom fram í máli ráðherra að frumvarpið gerði ráð fyrir heimild til að falla frá saksókn í sérstökum tilvikum þegar menn kæmu með upplýsingar um hugsanlega refisverða háttsemi sem snerti þá. Þetta ákvæði hefði verið nefnt ákvæði um litla Landssímamanninn eða 'whistle blower' á ensku.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×