Innlent

Þjóðhagslega hagkvæmt að Björn segi af sér

Atli Gíslason er þingmaður Vinstri grænna í Suðurkjördæmi.
Atli Gíslason er þingmaður Vinstri grænna í Suðurkjördæmi.

Atli Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, segir að það sé þjóðhagslega hagkvæmara að halda í yfirmennina hjá embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum sem sögðu upp í dag en að Björn Bjarnason haldi áfram störfum sem dómsmálaráðherra.

,,Það er mín skoðun að til að leysa málið og stöðuna sem upp er komin í löggæslumálum hér á landi að Björn segi af sér embætti," segir Atli.

Jóhann R. Bendiktsson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, tilkynnti fyrr í dag á fundi með samstarfsmönnum að hann hyggst láta af embætti. Þá hafa þrír lykilstarfsmenn hjá embættinu einnig tilkynnt um afsögn sína. Ástæðan fyrir uppsögn Jóhanns er ákvörðun dómsmálaráðuneytisins að auglýsa stöðu lögreglustjóra á Suðurnesjum til umsóknar án þess að Jóhann hafi sagt upp starfinu. Jóhann hefur gengt embætti lögreglustjóra síðastliðinn fimm ár.

Atli fór á fundinn í dag og segist hafa verið ákaflega sorgmæddur og reiður að honum loknum. Hann segir að ástandið í löggæslumálum sé skelfilegt og það sé einna verst á Suðurnesjum. Þar hafi fólki fjölgað um ríflega 20% á nokkrum árum og faraþegafjöldi í gegnum Keflavíkurflugvöll aukist sem og vöruafgreiðsla. Á sama tíma hafi fjárveitingar til embættis lögreglustjóra á Suðurnesjum staðið í stað.

Eins og staðan er í dag óttast Atli öryggi borgaranna og lögreglumanna. ,,Það er ótrúlegt hvað lögreglan vinnur gott starf undir þessum kringustæðum en erindið þrýtur ef málaflokkurinn verður áfram fjársveltur," segir Atli.

Atli segir að það verði að forgangsraða rétt og tekur heilshugar undir tillögur Stefáns Eiríkissonar, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, sem miða að því að nýta fjárveitingar til löggæslumála betur og með markvissri hætti.


Tengdar fréttir

Uppsögn Jóhanns kemur Birni á óvart

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, segir að hann hafi fært fyrir því skýr efnisleg rök þegar þegar hann ákvað að auglýsa embætti lögreglustjóra á Suðurnesjum til umsóknar. ,,Að lögreglustjóri bregðist við á þann veg, sem fyrir liggur, kom mér á óvart," segir Björn í tölvupósti vegna fyrirspurnar Vísis til ráðherra.

Fjórir lykilstarfsmenn lögreglunnar á Suðurnesjum hætta

Jóhann R. Benediktsson, lögreglu- og tollstjórinn á Suðurnesjum, hefur í dag óskað eftir því við dómsmálaráðuneytið að fá að hætta störfum þann 1. október næstkomandi. Jóhann tilkynnti samstarfsfólki sínu þetta á starfsmannafundi í safnaðarheimili Keflavíkurkirkju í dag.

Engin ragnarök við brotthvarf Jóhanns

„Það er vissulega áhyggjuefni ef það eru miklar breytingar i stjórnkerfi lögreglunnar og það gæti haft áhrif á gæði þjónustunnar," segir Árni Sigfússon bæjarstjóri í Reykjanesbæ. Jóhanni R. Benediktssyni lögreglustjóra á Suðurnesjum hefur verið tilkynnt að embætti hans verði senn auglýst laust til umsóknar, án þess að hann hafi óskað eftir því.

Talið líklegt að Sigríður Björk sæki um á Suðurnesjum

Sigríður Björk Guðjónsdóttir aðstoðarríkislögreglustjóri vill hvorki játa því né neita að hún muni sækja um embætti Lögreglustjórans á Suðurnesjum en starfið var auglýst laust til umsóknar. „Það hefur engin ákvörðun verið tekin um slíkt,"

Jóhann: Óeðlileg samskipti við Björn

Jóhann R. Benediktsson, fráfarandi lögreglustjóra á Suðurnesjum, segir að frá því að tilkynnt var í mars um að skipta eigi lögregluembættinu upp hafi samskipti sín við Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, verið óeðlileg. Jóhann var gestur í Kastljósi fyrr í kvöld.

Löggæslumál á Suðurnesjum munu gjalda fyrir klaufaskap Björns

Bjarni Harðarson, þingmaður Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi, segir uppsögn Jóhanns Benediktssonar, lögreglustjóra á Suðurnesjum, og þriggja annarra lykilstarfsmanna hjá embættinu mjög slæmar og segist mjög ósáttur við hvernig dómsmálaráðherra hafi farið fram í málinu.

Lögreglumenn á Suðurnesjum ósáttir með duttlunga Björns

Félagsmenn í Lögreglufélagi Suðurnesja eru ósáttir við ákvörðun Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra, um að auglýsa stöðu sitjandi lögreglustjóra á Suðurnesja lausa til umsóknar án nokkurs tilefnis. Þetta kemur fram í ályktun sam samþykkt var á félagsfundi Lögreglufélagsins fyrr í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×