Innlent

Jóhann: Óeðlileg samskipti við Björn

Jóhann R. Benediktsson á leið á fund með samstarfsmönnum sínum seinnipartinn í dag.
Jóhann R. Benediktsson á leið á fund með samstarfsmönnum sínum seinnipartinn í dag.

Jóhann R. Benediktsson, fráfarandi lögreglustjóra á Suðurnesjum, segir að frá því að tilkynnt var í mars um að skipta eigi lögregluembættinu upp hafi samskipti sín við Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, verið óeðlileg. Jóhann var gestur í Kastljósi fyrr í kvöld.

Nýverið var Jóhanni sagt að staða lögreglustjóra á Suðurnesjum yrði auglýst. Á fundi með samstarfsfólki í dag tilkynnti Jóhann að hann ætlar að láta af störfum 1. október. Þá hafa þrír lykilstarfsmenn hjá embættinu einnig tilkynnt um afsögn sína. Félagsmenn í Lögreglufélagi Suðurnesja eru ósáttir með dómsmálaráðherra.

Jóhann segir að aðdragandi málsins sé langur, en ákveðin kaflaskipti hafi orðið í mars þegar dómsmálaráðherra hafi tilkynnt að hann hygðist skipta embættinu upp. Sú ákvörðun ráðherra hafi verið fyrirvaralaus og án nokkurs samráðs við fag- og stéttarfélög eða yfirstjórn embættisins.

Samskipti Jóhanns og Björns hafa verið lítil sem engin frá því í mars. Þeir áttu einn fund og sat fundarritari fundinn ,,Það þótti mér undarlegt og mér voru sendir punktar í framhaldinu," sagði Jóhann og bætti við að þetta séu ekki eðlileg samskipti tveggja einstaklinga.

Jóhann segir að það hafi verið fyrirsláttur hjá Birni að auglýsa til umsóknar stöðu lögreglustjóra á Suðurnesjum. Þegar Jóhanni var tilkynnt um ákvörðunina var honum sagt að það væri vægasta úrræðið og telur Jóhann að ráðuneytið hafi íhugað að segja honum upp. Ekki var minnst á skipulagsbreytingar og segir Jóhann að það hafi komið sér á óvart þegar hann heyrði dómsmálaráðherra skömmu síðar tala um að ákvörðunin tengdist skipulagsbreytingum.








Tengdar fréttir

Fjórir lykilstarfsmenn lögreglunnar á Suðurnesjum hætta

Jóhann R. Benediktsson, lögreglu- og tollstjórinn á Suðurnesjum, hefur í dag óskað eftir því við dómsmálaráðuneytið að fá að hætta störfum þann 1. október næstkomandi. Jóhann tilkynnti samstarfsfólki sínu þetta á starfsmannafundi í safnaðarheimili Keflavíkurkirkju í dag.

Engin ragnarök við brotthvarf Jóhanns

„Það er vissulega áhyggjuefni ef það eru miklar breytingar i stjórnkerfi lögreglunnar og það gæti haft áhrif á gæði þjónustunnar," segir Árni Sigfússon bæjarstjóri í Reykjanesbæ. Jóhanni R. Benediktssyni lögreglustjóra á Suðurnesjum hefur verið tilkynnt að embætti hans verði senn auglýst laust til umsóknar, án þess að hann hafi óskað eftir því.

Talið líklegt að Sigríður Björk sæki um á Suðurnesjum

Sigríður Björk Guðjónsdóttir aðstoðarríkislögreglustjóri vill hvorki játa því né neita að hún muni sækja um embætti Lögreglustjórans á Suðurnesjum en starfið var auglýst laust til umsóknar. „Það hefur engin ákvörðun verið tekin um slíkt,"

Löggæslumál á Suðurnesjum munu gjalda fyrir klaufaskap Björns

Bjarni Harðarson, þingmaður Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi, segir uppsögn Jóhanns Benediktssonar, lögreglustjóra á Suðurnesjum, og þriggja annarra lykilstarfsmanna hjá embættinu mjög slæmar og segist mjög ósáttur við hvernig dómsmálaráðherra hafi farið fram í málinu.

Lögreglumenn á Suðurnesjum ósáttir með duttlunga Björns

Félagsmenn í Lögreglufélagi Suðurnesja eru ósáttir við ákvörðun Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra, um að auglýsa stöðu sitjandi lögreglustjóra á Suðurnesja lausa til umsóknar án nokkurs tilefnis. Þetta kemur fram í ályktun sam samþykkt var á félagsfundi Lögreglufélagsins fyrr í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×