Innlent

Löggæslumál á Suðurnesjum munu gjalda fyrir klaufaskap Björns

MYND/GVA

Bjarni Harðarson, þingmaður Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi, segir uppsögn Jóhanns Benediktssonar, lögreglustjóra á Suðurnesjum, og þriggja annarra lykilstarfsmanna hjá embættinu mjög slæmar og segist mjög ósáttur við hvernig dómsmálaráðherra hafi farið fram í málinu.

Jóhann tilkynnti á fundi með starfsmönnum lögregluembættisins á Suðurnesjum í dag að hann hygðist óska eftir því að fá að láta af störfum um næstu mánaðamót. Það gera einnig hans næstráðendur. Jóhann bar meðal annars við algjörum trúnaðarbresti í samskiptum við dómsmálaráðuneytið um framtíð embættisins, en dómsmálaráðherra vill skipta upp embættinu.

Bjarni segir sorglegt og afleitt hvernig farið hafi. „Ég er mjög ósáttur hverng staðið hefur verið að málum og tel að dómsmálaráðherra hafi í þessu máli gengið fullhart fram og að öll löggæslumál á Suðurnesjum muni um ófyrirséðan tíma gjalda fyrir klaufaskap og stífni ráðherra gagnvart embætti lögreglustjórans," segir Bjarni í samtali við Vísi.

Segir ekki meirihluta fyrir ákvörðuninni í kjördæminu

Aðspurður segist hann sem þingmaður Suðurkjördæmis bæði ætla að taka málið upp á Alþingi og meðal þingmanna kjördæmisins. „Ég tel reyndar að meðal þingmanna kjördæmisins, sem eru sex úr stjórnarliði og fjórir úr stjórnarandstöðu, sé enginn meirihluti fyrir því hvernig dómsmálaráðherra hafi haldið á málum," segir Bjarni og vísar meðal annars til andstöðu Lúðvíks Bergvinssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, við hugmyndir ráðherra um uppskiptingu lögregluembættisins.

Bjarni segist sammála Jóhanni Benediktsssyni að trúnaðarbrestur hafi orðið á milli embættisins og dómsmálaráðuneytisins. „Sem fjárlaganefndarmaður tel ég mikilvægt að stofnanir fylgi fjárlögum en mér virðist sem þolinmæði ráðuneytisins gagnvart þessu embætti sé minni en gengur og gerist í ríkisrekstrinum,“ segir Bjarni og bætir við að ráðuneytið og embættið hafi ekki verið sammála um hvað þurfi til þess að halda embættinu úti. „Þetta er eitt dæmi um það fjársvelti sem löggæslan í landinu hefur staðið frammi fyrir," segir Bjarni enn fremur.

Þá bendir þingmaðurinn á að það sé langt í frá að þetta snerti bara hagsmuni íbúa á Suðurnesjum. „Löggæsla á þessu svæði snertir hagsmuni allra landsmanna því það er hvergi eins brýnt að þar sé staðið vel og málum eins og við inngöngu í landið," segir Jóhann og á þar við lögreglu og tollgæslu á Keflavíkurflugvelli sem heyrir undir lögreglustjórann á Suðurnesjum. „Þar hefur embættið náð frábærum árangri og á betra skilið en þessar kveðjur," segir Bjarni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×