Innlent

Dyravörður dæmdur fyrir eyrnabit

Héraðsdómur Reykjavíkur sektaði í dag karlmann um hundrað þúsund krónur fyrir að ráðast á annan mann, bíta hann í eyra og kjálka og kýla hann.

Atvikið átti sér stað á skemmtistaðnum Rex í nóvember 2006. Sá sem ákærður var, var þar dyravörður og bað manninn sem ráðist var á að taka niður höfuðfat. Þegar hann neitaði því kom til áfloga á milli þeirra sem lyktaði meðal annars með því að dyravörðurinn beit gestinn.

Maðurinn neitaði sök fyrir dómi en kvaðst þó kannast við að hafa bitið fórnarlamb sitt. Þetta hefði verið gert í neyðarvörn eftir að tveimur öðrum dyravörðum hefði mistekist að losa tök gestsins á honum. Hann neitaði hins vegar að hafa þrifið í gestinn og kýlt hann í andlitið.

Dómurinn sakfelldi dyravörðinn fyrir bitið á þeim grundvelli að tveir dyraverðir voru komnir honum til aðstoðar og því hefði hann ekki þurft að bregðast svo harkalega við. Þá var hann út frá áverkum á gestinum og framburði vitna skafelldur fyrir að hafa kýlt gestinn í andlitið. Auk sektarinnar var hann dæmdur til að greiða gestinum um hundrað þúsund krónur í skaðabætur fyrir árásina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×