Innlent

Lægsta tilboð í verklok Reykjanesbrautar undir verkkostnaði

Fyrirtækin Toppverktakar og Adakris áttu saman lægst tilboð í það sem eftir er af tvöföldun Reykjanesbrautar en tilboð vegna verksins voru opnuð í morgun.

Tilboð félaganna hljóðar upp á 698 milljónir sem er um 90 prósent af áætluðum verkkostnaði. Hann hljóðaði upp á 770 milljónir. Alls buðu sjö aðilar í verkið, en fyrrnefnd félög voru ein undir verkkostnaði. Meðal annarrra bjóðenda voru Ístak, Háafell, Loftorka og Íslenskir aðalverktakar en þau buðu á bilinu 805 til 955 milljónir í verkið.

Sem fyrr segir er um að ræða verklok á Reykjanesbraut en verktakinn Jarðvélar sagði sig frá verkinu undir lok síðasta árs og var lýst gjaldþrota fyrr á þessu ári. Reiknað er með að brautin verði umferðarfær um miðja október eftir því sem Kristján L. Möller samönguráðherra sagði á Alþingi í fyrradag.

Um er að ræða kafla frá Strandarheiði að Njarðvík ásamt frágangi við vegamót Vogavegar, Grindavíkurvegar, Stapahverfis og Njarðvíkurvegar með tilheyrandi römpum, hringtorgum og þvervegum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×