Lífið

Síðustu tónleikar Pavarotti sviðsettir

MYND/AFP

Luciano Pavarotti lék eftir eigin söng á síðustu tónleikum sínum á vetrarólympíuleikunum í Turin árið 2006. Leone Magiera stjórnandi tónleikanna hefur viðurkennt að flutningur hans á laginu Nessun Dorma hafi verið tekinn upp fyrir tónleikana. Raunverulegur flutningur hefði verið „of áhættusamur."

Pavarotti sem lést í september kvaldist mörgum mánuðum áður en hann var greindur með krabbamein í brisi.

Í viðtali við BBC sagði Magiera; „Hljómsveitin þóttist spila, ég þóttist stjórna og Luciano þóttist syngja." Hann bætti við að það hefði tekist mjög vel, enginn hefði orðið var við tæknibrelluna.

Magiera ljóstraði leyndarmálinu upp í nýrri bók sinni Pavarotti Visto Da Vicino (Pavarotti í nálægð) sem var gefin út í síðasta mánuði.

Hann vann með Pavarotti í mörg ár og sagði að upptakan hefði átt sér stað í upptökuveri í Modena, heimabæ söngvarans. Hljómsveitin hefði verið tekin upp sérstaklega.

„Rödd hans var næstum heil, hann fann styrk til að endurtaka lagið þar til hann var fullkomlega ánægður. Þá féll hann aftur í hjólastólinn og lokaði augunum, örmagna af þreytu."

Pavarotti greindist með krabbamein í brisi sumarið 2006. Hann var skorinn upp í júlí og tónleikum það sem eftir lifði ársins aflýst. Fyrir uppskurðinn hafði hann aflýst fimm tónleikum vegna „vandkvæða eftir uppskurð á baki" eins og það var orðað í tilkynningum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.