Erlent

Condoleezza Rice vill verða varaforsetaefni McCain

Bandarískir fjölmiðlar hafa greint frá því um helgina að Condoleezza Rice utanríkisráðherra hafi áhuga á að verða varaforsetaefni Rebúblikanaflokksins

Fyrstur til að hafa orð á þessum áhuga Rice var Dan Senor áhrifamaður og einn af hugsuðum Repúblikanaflokksins. Hann sagði í pólitískum spjallþætti á ABC sjónvarpsstöðinni um helgina að Rice hefði unnið að þessu máli undanfarnar vikur. Rice hefði rætt við marga áhrifamenn innan flokksins og leitað eftir stuðningi við hana sem varaforsetaefni John McCain.

Og Senor nefnir sem dæmi að fyrir um tíu dögum síðan hefði Condoleezza Rice óvænt komið á óformlegan vikulegan fund hægri sinnaðra áhrifamanna sem haldinn er á hverjum miðvikudegi í Wasington. Þetta var í fyrsta sinn sem Rice sækir þennan fund.

Bent er á í bandarískum fjölmiðlum að Rice hafi góða möguleika á að verða varaforsetaefni McCain og þá ekki bara í ljósi þess að hún er blökkukona og því gott mótvægi við bæði Barak Obama og Hillary Clinton.

Ef McCain velji hana þurfi hann ekki að eyða miklum tíma í að kynna varaforsetaefni sitt fyrir þjóðinni eins og hann þyrfti að gera ef hann veldi einhvern ungan og óþekktan meðframbjóðenda. Og Rice hefur mikið fylgi meðal íhaldssamari arms Repúblikanaflokksins en slítk gæti skipt sköpum fyrir hann í kosningabaráttunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×