Lífið

Æstur aðdáandi eyðilagði Gibson gítar Bjarna í Mínus

Andri Ólafsson skrifar
Mínus. Bjarni er lengst til vinstri.
Mínus. Bjarni er lengst til vinstri.

Bjarni Sigurðarson, gítarleikari Mínus, varð fyrir því óláni að forláta Gibson ´61 SG gítar hans skemmdist á tónleikum hljómsveitarinnar á Organ í gærkvöldi.

Tónleikarnir voru þeir fyrstu í langan tíma sem hljómsveitin hefur haldið á Íslandi og var þeirra beðið með mikilli efirvæntingu.

Stemningin var slík þegar sveitin steig loks á stokk að strax í fyrsta lagi álpaðist óheppinn tónleikagestur upp á svið og rakst í Bjarna með þeim afleiðingum að gítarinn brotnaði í tvennt. Hálsinn brotnaði af búknum.

Bjarni var augljóslega miður sín vegna málsins þegar Vísir hafði samband við hann í dag. Skiljanlega. Hann er búinn að eiga gítarinn í 11 ár og með honum hefur hann spilað mestan sinn tónlistarferil.

"Hann hefur mikið tilfinningalegt gildi þessi gítar. Þetta er alveg hrikalegt," segir Bjarni.

Gítarinn hefur ekki bara tilfinningalegt gildi fyrir hann því gítar af þessu tagi kostar nefnilega hundruðir þúsunda króna. Svo hafði hann verið tekinn sérstaklega í gegn og yfirfarinn af hinum goðsagnarkennda rokkhundi Joe Baresi.

"Til þess að bæta gráu ofan á svart þá eyðilagðist varagítarinn minn á tóneikaferðalagi okkar um England fyrir skömmu. Svo ég á engann gítar núna," segir Bjarni.

Hann gerir þó létt grín að öllu saman talið berst að væntanlegum tónleikum sem Mínus ætlar að halda fyrir alla aldurshópa.

"Ætli ég komi ekki bara fyrir söfnunarbaukum á tónleikunum svo ég geti keypt mér nýjan gítar fljótlega."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.