Lífið

Paul McCartney slakar á með nýju kærustunni

Paul McCartney virtist hafa tekið gleði sína á ný þar sem hann slakaði á með nýju ástinni sinni á strönd á Antigua. Þangað flaug hann til að hitta kærustuna, Nancy Shevell, nokkrum dögum eftir að skilnaðarmáli hans og Heather Mills lauk í Lundúnum.

Þrátt fyrir að Heather hafi yfirgefið hjónabandið með fúlgur fjár, virðist Paul enn eiga nokkra aura í veskinu, en hann og Nancy gistu í villu sem kostar litlar níu hundruð þúsund á nóttina.

Líklegt má telja að tíðindin séu ekki gleðileg fyrir Heather Mills, en hún brjálaðist þegar myndir birtust af Paul og Nancy að kyssast í nóvember síðastliðnum. Skömmu eftir þær myndbirtingar tilkynnti Nancy að hún væri skilin við eiginmanninn, lögfræðinginn Bruce Blakeman. Hjónin voru vinir Pauls og fyrstu eiginkonu hans, Lindu McCartney.

Paul þarf líklega ekki að óttast það að Shevell sé á höttunum eftir auðæfum hans, hún er sjálf moldrík.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.