Lífið

Mótmæla háu eldsneytisverði með bensínlausri vespu

Breki Logason skrifar
Strákarnir að mótmæla á Langholtsveginum.
Strákarnir að mótmæla á Langholtsveginum. MYND/Jón Einarsson

„Við sáum bara fréttir af vörubílstjórunum og datt í hug að gera eitthvað," segir Atli Óskar Fjalarsson fimmtán ára gamall vespueigandi. Hann hefur ásamt félaga sínum Jóni Karli Einarssyni mótmælt háu bensínverði í morgun.

Strákarnir eru nemendur í 10.bekk Langholtsskóla og hafa gengið fram og tilbaka á Langholtsveginum með bensínlausa vepsu. Atli er búinn að eiga vespuna síðan í sumar og hefur tekið eftir hækkuninni á bensíninu. Hann segir það kosta um 600 krónur að fylla vespuna nú en tankurinn er lítill og því þarf oft að setja bensín á hana.

„Mér finnst bara að bensínverðið eigi að fylgja verðinu úti í heimi. Það hækkar alltaf en lækkar aldrei, það er ósanngjarnt," segir Atli en inneignin á símanum hans kláraðist í samtali við blaðamann.

„Það er líka alltof dýrt að hringja," segir Atli og hlær þegar blaðamaður hringir til baka. Strákarnir hafa gengið Langholtsveginn í morgun og segja marga vegfarendur hafa stoppað og rætt við þá félaga. „Einhverjir hafa líka flautað á okkur og sumir hringt á lögguna. Hún hefur samt ekkert komið."

Atli segir mótmæli vörubílstjóra síðustu daga vera sér að skapi. „Þetta er bara snilld og vonandi veldur þetta sem mestum óþægindum svo umræðan verði sem mest."

Strákarnir voru í gati í skólanum sem þeir nýttu í mótmælin. Þeir héldu síðan síðan áfram í hádegishléinu og ætluðu jafnvel að halda áfram nú síðdegis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.