Enski boltinn

Ronaldo er leikmaður 32. umferðar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Cristiano Ronaldo, leikmaður 32. umferðar.
Cristiano Ronaldo, leikmaður 32. umferðar. Nordic Photos / Getty Images

Í þriðja skiptið á tímabilinu er Cristiano Ronaldo leikmaður umferðarinnar hér á Vísi en hann skoraði fyrsta markið og lagði upp þrjú í 4-0 sigri Manchester United á Aston Villa um helgina.

Smelltu hér til að sjá myndband af leikmanni 32. umferðar, Cristiano Ronaldo.

Manchester United mætir Roma í fjórðungsúrslitum Meistaradeildar Evrópu annað kvöld og sendu Ronaldo og félagar hans í United skýr skilaboð til Ítalíu.

Liðið er með fimm stiga forystu í ensku úrvalsdeildinni og Ronaldo er markahæsti leikmaður hennar með 26 mörk á tímabilinu.

Eftir leikinn um helgina er hann einnig meðal efstu manna hvað fjölda stoðsendinga varðar. Alls hefur hann gefið sjö slíkar og hefur hann því komið að 33 mörkum í deildinni í vetur. Næsti maður í þeirri tölfræði er Fernando Torres með 24 mörk.

Það má heldur ekki gleyma því að Ronaldo skoraði sitt fyrsta mark í deildinni í vetur í áttundu umferð og hann gaf sína fyrstu stoðsendingu í sextándu umferð. Hann fékk nefnilega beint rautt í annarri umferð, í leik gegn Portsmouth, og fór í þriggja leikja bann.

Hann hefur 26 sinnum verið í byrjunarliði United á leiktíðinni sem þýðir að þegar hann byrjar inn á skorar hann að meðaltali eitt mark í leik. Hann hefur tvívegis komið inn á sem varamaður en hann skoraði ekki í þeim leikjum.

Því má við þetta bæta að aðeins tvö af þessum mörkum hafa komið úr vítaspyrnum. Hann hefur þar að auki misnotað eina vítaspyrnu, í 2-1 tapleik gegn West Ham milli jóla og nýárs.

Tommy Smith, fyrrum leikmaður Liverpool, sagði í viðtali við BBC í dag að hann að eina leiðin til að stöðva hann væri að reyna að ná til boltans, ekki til leikmannsins.

„Maður verður að hafa auga á boltanum og leyfa honum ekki að plata þig. Maður verður að vera eins útsjónarsamur og hann."

En eins og staðan er í dag eru fáir leikmenn jafn útsjónarsamir og Cristiano Ronaldo.

Nafn: Cristiano Ronaldo dos Santos Aveiro

Fæddur: 5. febrúar í Funchal, Madeira í Portúgal.

Lið: Sporting Lissabon (2001-2003), Manchester United (2003-).

Númer: 7.

Lið vikunnar :

Markvörður: David James, Portsmouth

Vörn:

Glen Johnson, Portsmouth

William Gallas, Arsenal

Ricardo Carvalho, Chelsea

David Wheater, Middlesbrough

Miðja:

Cristiano Ronaldo, Manchester United

Matt Taylor, Bolton

Nicky Butt, Newcastle

Sókn:

Mauro Zarate, Birmingham

Wayne Rooney, Manchester United

Jermain Defoe, Portsmouth




Fleiri fréttir

Sjá meira


×