Lífið

Landslið stjórnmálamanna kvaddi Bolla

Bolli hyggst nema við Waseda háskólann í Tokyo.
Bolli hyggst nema við Waseda háskólann í Tokyo.
Það var húsfyllir í Iðnó í gær þegar Bolli Thoroddsen, varaborgarfulltrúi og formaður ÍTR, kvaddi vini sína.

Á meðal gesta í veislunni voru Geir H. Haarde forsætisráðherra og Inga Jóna Þórðardóttir eiginkona hans. Þar voru einnig Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra og Ólafur Þ. Harðarson prófessor í stjórnmálafræði. Að sjálfsögðu mættu svo félagar úr borgarstjórninni. Þeirra á meðal voru Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Gísli Marteinn Baldursson og Kjartan Magnússon borgarfulltrúar. Af vinstri kantinum mættu Svandís Svavarsdóttir, Sóley Tómasdóttir og Óskar Bergsson brunaði upp miðjuna.

Á þriðjudaginn kemur flytur Bolli til Tokyo þar sem hann mun stunda meistaranám í fjármálum við Waseda háskólann og starfa fyrir Actavis.

„Það sem skiptir auðvitað mestu máli er að þarna voru vinir sem ég hef eignast frá því að ég var lítill. Vinir mínir úr Ísaksskóla, Austurbæjarskóla, MR, Heimdalli og úr háskólanum voru allir mættir þarna til að kveðja mig," sagði Bolli. Hann sagði að það hefði glatt sig sérstaklega að sjá Herdísi Egilsdóttur, fyrrverandi kennara sinn, í hópi gesta.

Formaður fangavarðafélagsins færði Bolla svo góða gjöf frá fyrrverandi samstarfsmönnum hans frá Litla Hrauni, en Bolli starfaði þar í sumarafleysingum, síðasta sumar. „Ég fór náttúrulega frá Litla Hrauni yfir til Actavis," sagði Bolli, en hann telur að það hafi verið afar gefandi að vinna sem fangavörður.

Það var Björn Ársæll Pétursson, bróðir Bolla, sem sá um veislustjórn og Margrét S. Björnsdóttir, móðir Bolla, flutti ræðu og hvatti son sinn til dáða. Jóhannes Kristjánsson eftirherma sá svo um að kitla hláturtaugar veislugesta.

Bolli segir þó að þrátt fyrir að hann sé farinn út í nám þá sé hann alls ekki búinn að yfirgefa Ísland og borgarpólitíkina fyrir fullt og allt. „Ég er bara kominn í smá frí," sagði Bolli í samtali við Vísi.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.