Lífið

Fríríki ekki lausnin

„Mér finnst alltaf gaman þegar fólk stofnar félög, það er öllum frjálst," segir Grímur Atlason, bæjarstjóri í Bolungarvík aðspurður um skoðanir sínar á nýstofnuðu félagi bloggara til bjargar Vestfjörðum - BBV. Meðal hugmynda félagsins er að firðirnir verði aðskildir frá meginlandinu með skipaskurði, og að þeir verði fríríki.

„Þetta eru talsvert djarfar hugmyndir, en full óraunhæfar," segir bæjarstjórinn, og bætir við að gremja manna sé þó skiljanleg. Vestfirðir séu jú partur af Íslandi, en að mörgu leiti úti í kuldanum. „Köld hagsvæði blæða alltaf fyrir þensluna, og líka fyrir þynnkuna," segir Grímur. Hann bætir við að áhrifa nýliðinnar góðtíðar hafi til að mynda ekki gætt á Vestfjörðum líkt og annars staðar, en vaxtahækkanir leggist af sama þunga á launafólk þar.

En þrátt fyrir að honum finnist hugmyndin galin þá segist hann geta tekið undir margt, eins og þær tillögur hópsins að leyfa eigi strandveiðar á fimmtán tonna bátum, og ýta togurunum út fyrir fimmtíu mílur.

Grímur segir það ekki mega gleymast að það muni aldrei neitt bjarga Vestfjörðum nema fólkið sem býr þar. Það sé heilmargt að gerast þar sem sé frábært. Hann tekur sem dæmi snyrtivöruframleiðandann Villimey, 3x stál og tónlistarhátíðina Aldrei fór ég suður. Allt sjálfsprottnar hugmyndir innfæddra.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.