Enski boltinn

Taylor undirbýr aðra heimsókn til Eduardo

NordcPhotos/GettyImages

Breskir fjölmiðlar hafa velt sér mikið upp úr því hvort Martin Taylor hjá Birmingham bað Arsenal-manninn Eduardo yfir höfuð afsökunar á fótbrotstæklingunni ljótu á sínum tíma.

Mörg bresku blaðanna héldu því statt og stöðugt fram að Taylor hefði alls ekki heimsótt Eduardo á sjúkrahúsið eftir atvikið eins og varnarmaðurinn hélt sjálfur fram.

Þetta hefur nú verið leiðrétt og þó Eduardo sjálfur muni lítið eftir heimsókninni, hefur kona króatíska leikmannsins staðfest að Taylor hafi mætt á svæðið.

Hlutir eins og tungumálaerfiðleikar og annarlegt ástand Eduardo urðu hinsvegar til þess að hann man lítið eftir heimsókninni.

Taylor er staðráðinn í að eiga annan fund með Eduardo, sem getur ekki leikið knattspyrnu næstu níu mánuði eða svo. Breska blaðið Mirror náði tali af þeim báðum.

"Ég fór til hans á laugardeginum og sunnudeginum og sagði honum að mér þætti fyrir þessu. Hann kinkaði kolli, en síðan hef ég lesið eitt og annað misjafnt um þetta. Ég væri alveg til í að hitta hann aftur og það er nokkuð sem mig langar að gera," sagði Taylor.

Eduardo hefur tekið vel í það að fyrirgefa Taylor brotið.

"Ef hann kemur til mín og biður um fyrirgefningu, mun ég veita hana. Ég er sonur Guðs og ég fyrirgef. Ég held að hann hafi komið á spítalann á sínum tíma, en ég sá hann ekki. Konan mín sagði mér að hann hefði komið meðan ég var í aðgerð og fólk á sjúkrahúsinu sá hann," sagði Eduardo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×